Fara beint í efnið

Um húsnæðislán hjá HMS

Greiðslubyrðarhlutfall

Seðlabankinn hefur sett reglur um hversu hátt hlutfall af útborguðum launum fólks má fara í að greiða af íbúðalánum. Þetta kallast greiðslubyrðarhlutfall. Það er reiknað af sameiginlegum launum hjóna og fólks í sambúð.

  • Hámarkshlutfallið er 35% af útborguðum launum.

  • Hámarkshlutfall þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign er 40%.

  • Hámarkshlutfall þeirra sem áttu fasteign í Grindavík 10. nóvember 2023 er 40% (gildir til 1. mars 2027)

Dæmi:

  • Hjón (eða fólk í sambúð) sækja um lán.

  • Samanlögð útborguð laun þeirra eru 1.000.000 kr. á mánuði.

  • Afborgun af íbúðalánum þeirra má ekki vera hærri en 350.000 kr. af útborguðum launum (35%) .

  • Ef fólkið er fyrstu kaupendur má afborgunin vera 400.000 kr. (40%).

Dæmið er samt ekki endilega svona einfalt. Hlutfallið er reiknað miðað við forsendur láns samkvæmt reglum Seðlabankans sem eru ekki endilega kjörin sem eru í boði.


Meginreglan er:

  • Fyrir óverðtryggð lán má miða við allt að 40 ára lánstíma og vexti viðkomandi láns en þó ekki lægri vexti en 5,5%.

  • Fyrir verðtryggð lán má miða við allt að 25 ára lánstíma og vexti viðkomandi láns en þó ekki lægri en 3%.

Þannig að ef þú tekur verðtryggt lán til 40 ára er greiðslubyrðarhlutfallið samt reiknað miðað við 25 ára lánstíma. Þar sem þá er miðað við styttri lánstíma er miðað við hærri mánaðarlega afborgun.

Til að átta þig betur á hver mánaðarleg afborgun verður með breyttum forsendum geturðu notað lánareiknivél HMS.

Greiðslubyrðarhlutfall er reiknað í greiðslumati eftir að umsókn er send inn.