Hjúkrunarheimili og dagdvöl aldraðra
Hjálpartæki fyrir íbúa á hjúkrunarheimilum
Í mars 2022 var reglum um styrki vegna hjálpartækja fyrir íbúa á hjúkrunarheimilum breytt. Sjúkratryggingar greiða nú styrki vegna tiltekinna hjálpartækja til íbúa hjúkrunarheimila sem áður var á hendi hjúkrunarheimilanna sjálfra að útvega og greiða fyrir. Þetta á t.d. við um tiltekin hjálpartæki vegna öndunarmeðferðar og blóðrásarmeðferðar, stoðtæki, stómahjálpartæki, göngugrindur, hjólastóla og fylgihluti með þeim og tölvur til sérhæfðra tjáskipta.
Breytingin felur m.a. í sér að einstaklingur í heimahúsi sem nýtir sér tiltekin hjálpartæki líkt og hér um ræðir heldur þeim þegar hann flytur inn á heimilið, í stað þess að hjúkrunarheimilið útvegi honum önnur hjálpartæki í þeirra stað.
Kveðið er á um umræddar breytingar með reglugerð nr. 239/2022 um breytingu á reglugerð nr. 427/213 um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu og reglugerð nr. 238/2022 um breytingu á reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja.
Bent er á að hjúkrunarheimilin sækja um viðkomandi hjálpartæki fyrir hönd íbúa sinna í gegnum Gagnagátt. Ef ekki er um 100% greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga að ræða þá greiða hjúkrunarheimilin mismuninn.
Þjónustuaðili
Sjúkratryggingar