Fara beint í efnið

Lægri flug­fargjöld fyrir íbúa lands­byggð­arinnar

Bætir aðgengi landsbyggðar að miðlægri þjónustu í höfuðborginni.

Svæði sem falla undir Loftbrú

Íbúar á landsbyggðinni með lögheimili fjarri höfuðborginni eiga frá og með deginum í dag kost á lægri flugfargjöldum til borgarinnar. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti þessa nýjung, sem ber heitið Loftbrú, á kynningarfundi í flugstöðinni á Egilsstöðum í dag.

Loftbrú veitir afsláttarkjör til þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eyjum. Undir Loftbrú falla Vestfirðir, hluti af Norðurlandi vestra, Norðurland eystra, Austurland, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Svæðið er afmarkað með tilliti til póstnúmera. Alls ná afsláttarkjör Loftbrúar til rúmlega 60 þúsund íbúa á þessum
svæðum.

Markmiðið með verkefninu er að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Afsláttarkjörin koma þeim til góða sem vilja nýta margvíslega þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og til að heimsækja ættingja og vini. Loftbrú er ætluð fólki í einkaerindum til höfuðborgarinnar en ekki fyrir ferðir í atvinnuskyni eða hefðbundnar
vinnuferðir.

Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Fullur afsláttur er veittur hvort sem valið er afsláttarfargjald eða fullt fargjald. Hver einstaklingur getur fengið lægri fargjöld fyrir allt að þrjár ferðir til og frá Reykjavík á ári (sex flugleggir). Út árið 2020 gilda afsláttarkjörin fyrir eina ferð til og frá
Reykjavík (tveir flugleggir).

Til að nýta Loftbrú auðkennir fólk sig á Ísland.is með rafrænum skilríkjum og þeir sem
eiga rétt á Loftbrú fá yfirlit yfir réttindi sín. Þeir sem vilja nýta afsláttinn sækja sérstakan afsláttarkóða sem notaður er á bókunarsíðum flugfélaga þegar flug í áætlunarflugi er pantað.

„Í mínum huga er Loftbrú ein að mikilvægari byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í og með því er tekið stórt skref til að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annarsstaðar en á suðvesturhorninu. Það er mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni og vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslu á ferðum sínum með flugi. Ég er sérlega ánægður að sjá afsláttarkjörin verða að veruleika en verkefnið hefur verið á stefnuskrá minni síðan ég kom í ráðuneytið. Fyrirmyndin var sótt til nágranna okkar Skota en við höfum nú útfært verkefnið á okkar hátt og gert aðgengilegt í takt við áherslur um stafræna þjónustu hins opinbera,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Verkefnið er hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að efla innanlandsflug og byggja upp almenningssamgöngur um land allt. Verkefnið er hluti af samgönguáætlun 2020–2034 sem Alþingi samþykkti í júní 2020. Verkefnið hefur gjarnan verið nefnt skoska leiðin þar
sem það á fyrirmynd í vel heppnuðu kerfi sem Skotar hafa byggt upp í samstarfi ríkis og flugfélaga.

Vegagerðin fer með umsjón og framkvæmd verkefnisins í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Stafrænt Ísland. „Vegagerðin vinnur að almannasamgöngum utan þéttbýlis um land allt. Það er okkur gleðiefni að geta greitt götu þeirra sem nota flug frá fjærstu byggðum landsins að höfuðborg allra landsmanna og þeirri þjónustu sem þar er að sækja,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Stafrænt Ísland ber ábyrgð á uppbyggingu Ísland.is sem miðlægri þjónustugátt fyrir hið opinbera og er Loftbrú eitt þeirra verkefna. „Það er frábært að sjá verkefni á borð við Loftbrú verða að veruleika á jafn skömmum tíma. Lausnin var þróuð á grunni þeirra stafrænu innviða sem byggðir hafa verið upp á Ísland.is að undanförnu, en mikil samlegðaráhrif felast í þróun opins hugbúnaðar í samstarfi við þverfagleg teymi úr atvinnulífinu. Með nýtingu stafrænna lausna verður aðgengi allra landsmanna að opinberri þjónustu jafnt,“ segir Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands. Veflausn Loftbrúar er tengd bókunarvélum flugfélaga, sem bjóða upp á innanlandsflug, en það eru Air Iceland Connect, Ernir og Norlandair.

Nánari upplýsingar um Loftbrú má finna á Ísland.is