Fara beint í efnið

Börn í bíl

Helstu reglur og öryggisatriði

Öll börn undir 135 cm skulu nota barnabílstól þegar þau ferðast í bíl. Ekkert er því þó til fyrirstöðu að börn noti bílstól lengur að því gefnu að stóllinn sé framleiddur fyrir hæð og þyngd barnsins.

Börn undir 150 cm mega ekki sitja í framsæti framan við virkan öryggispúða. Ef loftpúðinn hefur verið aftengdur eða gerður óvirkur með öðrum hætti er börnum óhætt að sitja í framsæti.

Bakvísandi barnabílstólar

Öruggast er að hafa barn í bakvísandi barnabílstól eins lengi og hægt er þar sem flest slys og óhöpp valda höggi framan á bílinn og í þeim tilfellum verja bakvísandi stólar höfuð og háls barnsins mjög vel. Mælt er með því að börn séu í bakvísandi stólum að minnsta kosti til þriggja ára aldurs.

Að festa stól og barn rétt í bílinn

Mikilvægt er að lesa leiðbeiningar vel þegar stóll er festur í bíl, sérstaklega í fyrsta skipti. Ef stóll er ranglega festur í bíl eða barn ranglega fest í stólinn þá getur búnaðurinn verið gagnslaus.

  • Passa þarf að belti séu ekki snúin og að þau falli passlega þétt að barninu. Þrengja gæti þurft beltið eftir því hversu mikið barnið er klætt hverju sinni.

  • Athugið sérstaklega að þrengja beltið vel ef barnið er í dúnúlpu eða öðrum fatnaði sem notar loft sem einangrun. Við mikið högg gefur loftið inni í flíkinni eftir og er þá hætta á að barnið sé ekki nógu vel skorðað í stólinn.

  • Öruggasta leiðin til að festa stóla er með isofix-festingu beint í grind bílsins. Flestir nýir bílar eru með isofix-festingum og er mælt með því að nota stól með slíkum festingum.

  • Barnabílstólar þurfa að uppfylla evrópska staðla, annaðhvort ECE reglugerð 44.04 eða ECE reglugerð R129 (i-size). Ef keyptur er stóll utan Evrópu þarf að ganga úr skugga um að þessir staðlar séu uppfylltir ef ætlunin er að flytja þá inn og nota hérlendis.

  • Endingartímar barnabílstóla eru ákvarðaðir af framleiðanda. Í flestum tilfellum endast ungbarnastólar í 5 ár og stólar fyrir eldri börn í 10 ár.

  • Notkunarleiðbeiningar stóla gefa upp fyrir hvaða hæð og þyngd stóllinn er ætlaður. Börn geta orðið of hávaxin fyrir stól, og ef að höfuð barns nær upp fyrir stólbak er það vaxið upp úr stólnum, þrátt fyrir að vera ekki orðið of þungt fyrir stólinn. Í þeim tilfellum er mælt með að skoða stóla sem eru framleiddir fyrir börn upp að 150 cm, óháð þyngd.

Notaðir barnabílastólar

Notaðir barnabílstólar geta verið varasamir þar sem erfitt getur verið að sannreyna að stóllinn hafi ekki orðið fyrir hnjaski og sprungur myndast undir klæðningu. Því er ekki mælt með að kaupa notaðan stól af ókunnugum.

Viðurlög
  • Sekt fyrir að nota ekki réttan öryggisbúnað fyrir barn í bíl er 30.000,- krónur.

  • Sama sekt fellur á bílstjóra ef barn yfir 135 cm en undir 15 ára aldri notar ekki öryggisbelti.

Fræðslumynd

Bæklingur

Einblöðungar