Sóttvarnarsvið er ábyrgt fyrir verkefninu Aðgerðir til að efla vöktun smitsjúkdóma á Íslandi (Improving and Strengthening National Surveillance Systems in Iceland, Iceland-ISNSS). Það er styrkt af heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins (EU4Health) og er hluti af sameiginlegu átaki innan ESB/EES-svæðisins. Markmið verkefnisins er að efla stafræna innviði vöktunar smitsjúkdóma á Íslandi, sem sóttvarnalæknir heldur skrá um samkvæmt sóttvarnalögum.
Vinnan byggir á lærdómi af COVID-19 heimsfaraldrinum og miðar að því að auka viðbúnað, samhæfingu og skilvirkni gagnaflæðis innanlands. Á sama tíma styðja þessar umbætur við betri upplýsingamiðlun til Sóttvarnarstofnunar Evrópu (ECDC).
Lykilumbætur fela í sér:
Eflingu smitsjúkdómaskrár sem gagnagrunns til móttöku og úrvinnslu gagna.
Þróun sýnatökuskráningarkerfis til að efla vöktun ýmissa sýkla, svo sem öndunarfæraveirur á borð við COVID-19 og inflúensu.
Samþættingu gagnagrunna til að efla alhliða vöktun, meðal annars á alvarlegum sýkingum.
Innleiðingu rafræns kerfis tengt sjúkraskrá fyrir lækna til að skila klínískum upplýsingum vegna tilkynningarskyldra sjúkdóma.
Þróun gagnagrunns fyrir smitrakningu.
Bætt stafrænt viðmót fyrir birtingu vöktunargagna með rauntímayfirsýn.
Verkefnið hófst í janúar 2025 og er til fjögurra ára.
Verkefnið snýst um að búa til nýtt rafrænt vöktunarkerfi fyrir tilkynningarskyldra sjúkdóma, þar sem tilkynningar lækna, smitrakning og sýnataka verða sameinuð á einum stað. Kerfið mun auðvelda tilkynningaferlið fyrir lækna og tryggja nákvæma og rekjanlega örugga upplýsingagjöf til sóttvarnalæknis. Jafnframt verða hönnuð uppfærð mælaborð á vef embættis landlæknis þar sem hægt verður að sjá faraldsfræðilegar upplýsingar í rauntíma.
Markmið verkefnisins er að einfalda tilkynningarferlið, stytta þann tíma sem fer í umsýslu og tryggja að upplýsingar um tilkynningarskylda sjúkdóma berist á markvissan hátt. Með því aukast gæði gagnanna, ásamt rekjanleika og yfirsýn yfir sjúkdóma sem falla undir tilkynningarskyldu samkvæmt sóttvarnarlögum nr. 19/1997. Í dag er skráning og miðlun upplýsinga um tilkynningarskylda sjúkdóma flókin og dreifð milli kerfa, sem takmarkar yfirsýn. Nýja vöktunarkerfið styður við að upplýsingarnar berist á öruggan og rekjanlegan hátt.
Innleiðing fer fram í áföngum samkvæmt tímalínu í áfangaskýrslu. Prófanir á fyrstu sjúkdómahópum hófust í nóvember 2025 og munu halda áfram skref fyrir skref fram til loks árs 2028. Viðeigandi hópar notenda verða fengnir með í prófanir á mismunandi stigum innleiðingar, þannig að endanlegt kerfi endurspegli raunverulegt vinnuflæði og þarfir fagfólks. Full innleiðing er áætluð í lok árs 2028.
Allar lausnir fylgja íslenskum lögum um persónuvernd (nr. 90/2018), meðferð heilbrigðisupplýsinga og heilbrigðisskráa og fleira auk viðeigandi reglugerða, GDPR (EU 2016/679) og öryggisstöðlum Evrópusambandsins.
Já, pappírsumsýslu vegna tilkynningarskylda sjúkdóma verður skipt út fyrir rafrænt kerfi sem mun:
leiða notendur í gegnum einfalt og skýrt spurningaflæði,
birta aðeins þær spurningar sem eiga við út frá viðkomandi sjúkdómi og fyrri svörum,
stytta þann tíma sem fer í að senda tilkynningu.
Upplýsingar um framvindu verkefnisins verða aðgengilegar hér á vefnum, þar sem reglulega verða birtar fréttir, uppfærslur og leiðbeiningar fyrir fagfólk.
Fyrir almennar fyrirspurnir er hægt að hafa samband í gegnum netfangið: