Vöktun smitsjúkdóma og sjúkdómsvalda
Aðgerðir til að efla vöktun smitsjúkdóma
Sóttvarnarsvið er ábyrgt fyrir verkefninu Aðgerðir til að efla vöktun smitsjúkdóma á Íslandi (Improving and Strengthening National Surveillance Systems in Iceland, Iceland-ISNSS). Það er styrkt af heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins (EU4Health) og er hluti af sameiginlegu átaki innan ESB/EES-svæðisins. Markmið verkefnisins er að efla stafræna innviði vöktunar smitsjúkdóma á Íslandi, sem sóttvarnalæknir heldur skrá um samkvæmt sóttvarnalögum.
Vinnan byggir á lærdómi af COVID-19 heimsfaraldrinum og miðar að því að auka viðbúnað, samhæfingu og skilvirkni gagnaflæðis innanlands. Á sama tíma styðja þessar umbætur við betri upplýsingamiðlun til Sóttvarnarstofnunar Evrópu (ECDC).
Lykilumbætur fela í sér:
Eflingu smitsjúkdómaskrár sem gagnagrunns til móttöku og úrvinnslu gagna.
Þróun sýnatökuskráningarkerfis til að efla vöktun ýmissa sýkla, svo sem öndunarfæraveirur á borð við COVID-19 og inflúensu.
Samþættingu gagnagrunna til að efla alhliða vöktun, meðal annars á alvarlegum sýkingum.
Innleiðingu rafræns kerfis tengt sjúkraskrá fyrir lækna til að skila klínískum upplýsingum vegna tilkynningarskyldra sjúkdóma.
Þróun gagnagrunns fyrir smitrakningu.
Bætt stafrænt viðmót fyrir birtingu vöktunargagna með rauntímayfirsýn.
Verkefnið hófst í janúar 2025 og er til fjögurra ára.

Þjónustuaðili
Embætti landlæknis