Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sveitarstjórnarkosningar 2026

Óbundnar kosningar

Ef engir framboðslistar eru lagðir fram fer fram svokölluð óbundin kosning. Þar eru allir kjósendur í viðkomandi sveitarfélagi í kjöri (nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því.)

Hvernig er atkvæði greitt í óbundnum kosningum? 

Atkvæði greitt utankjörfundar  

Atkvæðaseðill í kosningum utan kjörfundar er auður. 

  • Á seðilinn skrifar kjósandi fullt nafn og heimilisfang þeirra sem hann vill kjósa í sveitarstjórn, þó ekki fleiri en sem nemur fjölda aðalmanna í sveitarstjórn.

    • Fyrir neðan nöfn aðalmanna skrifar kjósandi fullt nafn og heimilisföng þeirra sem hann vill kjósa sem varamenn í sveitarstjórn í þeirri röð sem hann kýs að þeir taki sæti, þó ekki fleiri en sem nemur fjölda aðalmanna í sveitarstjórn.

Atkvæði greitt á kjördag  

Atkvæðaseðillinn er auður.

  • Kjósandi skrifar fullt nafn og heimilisfang aðalmanna á þann hluta kjörseðilsins sem ætlaður er fyrir kjör aðalmanna, þó ekki fleiri en sem nemur fjölda aðalmanna í sveitarstjórn.

    • Á þann hluta seðilsins sem ætlaður er fyrir kjör varamanna skrifar hann nöfn varamanna og heimilisföng þeirra í þeirri röð sem hann kýs að þeir taki sæti allt að þeirri tölu sem kjósa á. 

Kjósandi ákveðinn fyrirfram

Æskilegt er að kjósandi sé búinn að ákveða hvernig hann ætlar að kjósa áður en hann mætir á kjörstað, hvort sem um er að ræða atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eða á kjördag til að hann geti skrifað rétt nöfn og heimilisföng þeirra aðal- og varamanna sem hann hyggst greiða atkvæði.

Ekkert er því til fyrirstöðu að kjósandi skrifi slíkar upplýsingar á blað sér til minnis og hafi það með sér til stuðnings í kjörklefa á meðan hann greiðir atkvæði.

Um gildi atkvæða 

Ýmislegt getur orðið til þess að atkvæði sé metið ógilt, s.s. ef kjörseðilinn er auðkenndur á einhvern hátt.  

  • Við óbundnar kosningar skal ekki meta atkvæði ógilt þótt sleppt sé fornafni, eftirnafni eða heimilisfangi ef greinilegt er eftir sem áður við hvern er átt.

  • Atkvæði hafa verið metin gild þótt einungis séu tilgreindir aðalmenn, þó að lágmarki einn aðalmaður.

  • Atkvæði hafa verið metin ógild ef einungis eru tilgreindir varamenn og einnig ef tilgreindir eru fleiri aðalmenn en kjósa á.

  • Atkvæði skal ekki meta ógilt af þeirri ástæðu einni að ekki er tilgreindur fullur fjöldi aðal- eða varamanna. Kjörstjórn ber því almennt að taka atkvæði gilt þótt þar séu t.d. aðeins tilgreind nöfn fjögurra aðalmanna, svo fremi að ekki sé um aðrar ástæður að ræða sem leitt geta til ógildingar.