Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa
Algengar spurningar
Neytendur geta óskað eftir úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa vegna ágreinings sem rís af sölu- eða þjónustusamningi.
Skilyrði þess að nefndin geti tekið mál til meðferðar:
Kvörtun berst frá neytanda. Með neytanda er átt við einstakling sem kaupir vöru eða þjónustu gegn endurgjaldi, enda séu kaupin ekki gerð í atvinnuskyni.
Kvörtun beinist gegn seljanda. Með seljanda er átt við einstakling, félag, opinberan aðila og aðra sem koma fram í atvinnuskyni og gera samninga við neytendur.
Neytandi hefur leitað til seljanda og reynt að ná sáttum í ágreiningi án árangurs.
Ágreiningur á undir kærunefnd vöru- og þjónustu kaupa.
Allar upplýsingar um hvernig leggja eigi fram kvörtun má finna hér.
Neytandi skal gera grein fyrir helstu upplýsingum um keypta vöru eða þjónustu og skýra frá þeim ágreiningi sem komið hefur upp í viðskiptum og samskiptum við seljanda með hnitmiðuðum hætti. Þá skal neytandi gera grein fyrir kröfum sínum eða því sem farið er fram á í málinu.
Eftirfarandi eru upplýsingar um þau atriði sem æskilegt er að komi fram í kvörtun:
Upplýsingar um neytanda
Nafn, kennitala, heimilisfang, símanúmer og netfang
Upplýsingar um seljanda
Nafn, kennitala, heimilisfang, símanúmer og netfang
Ef samskipti hafa farið fram milli neytanda og tiltekins starfsmanns seljanda með tölvupósti er gott að netfang þess starfsmanns komi fram í kvörtun.
Upplýsingar um söluhlut/þjónustu
Upplýsingar um samning milli aðila
Fjárhæð kaupverðs eða greiðslu fyrir umrædda þjónustu
Dagsetningar sem skipta máli
Lýsing á ágreiningi í málinu
Kröfur sem neytandi gerir á hendur seljanda og rökstuðningur, t.d. riftun, afsláttur, skaðabætur, úrbætur, afhending eða annað sem getur átt við.
Þegar kvörtun er send nefndinni er mikilvægt að henni fylgi öll nauðsynleg gögn til stuðnings og sönnunar kröfunni. Kærunefndin aflar að jafnaði ekki gagna sjálf og því er mikilvægt að öll gögn sem vísað er til liggi fyrir.
Niðurstaða málsins byggir á þeim gögnum sem lögð eru fram.
Dæmi um gögn sem getur verið gagnlegt að láta fylgja með kvörtun:
Staðfesting á greiðslu á vöru eða þjónustu
Samningur milli aðila
Reikningar
Ljósmyndir
Skilmálar
Skrifleg samskipti milli aðila
Skriflegt álit sérfræðings á galla
Skriflegt álit sérfræðings á að verð fyrir þjónustu sé ósanngjarnt, ef það á við.
Neytanda ber að greiða málskotsgjald að fjárhæð 5.000 krónur og er gjaldið greitt þegar kvörtun hefur verið fyllt út, áður en kvörtunin er send til nefndarinnar.
Ef fallist er á kröfu neytanda í heild eða að hluta fær hann málskotsgjaldið endurgreitt. Ef málsaðilar tilkynna nefndinni um sættir í máli eftir að kvörtun berst er málskotsgjaldið einnig endurgreitt neytanda.
Neytandi hefur rétt á að draga sig úr málsmeðferðinni á öllum stigum máls en málskotsgjald fæst þá ekki endurgreitt.
Kærunefndin vinnur að meginstefnu til mál í þeirri röð sem þau berast. Sökum fjölda mála hjá kærunefnd vöru- og þjónustukaupa má gera ráð fyrir að áætlaður málsmeðferðartími sé um 7-10 mánuðir.
Þegar úrskurður nefndarinnar liggur fyrir er hann birtur málsaðilum. Úrskurðir kærunefndarinnar eru birtir á heimasíðu nefndarinnar en persónulegar upplýsingar eru afmáðar.
Úrskurðum kærunefndarinnar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda en aðilar geta borið ágreininginn undir dómstóla með hefðbundnum hætti. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum úrskurðarins.
Seljandi skal hafa samband við neytanda og fá upplýsingar til að geta greitt í samræmi við úrskurðarorð.
Seljanda er heimilt að tilkynna nefndinni að hann uni ekki úrskurðinum og er úrskurðurinn þá ekki bindandi. Slík tilkynning skal berast með skýrum og sannanlegum hætti innan 30 daga frá tilkynningu um úrskurðinn. Nefndin heldur skrá yfir seljendur sem fylgja ekki úrskurði nefndarinnar og er skráin aðgengileg almenningi á heimasíðunni.
Nefndin aðstoðar ekki við fullnustu úrskurða.
Neytandi getur leitað fullnustu úrskurðarins á grundvelli laga um aðför nr. 90/1989 ef seljandi fer ekki að aðfararhæfum úrskurði. Að ósk neytanda gefur nefndin út vottorð um að skilyrði þess að krefjast fullnustu séu uppfyllt.