Úrskurðarnefndir í neytendamálum
Á ýmsum sviðum eru til kæru- og úrskurðarnefndir sem taka til meðferðar einkaréttarlegar kröfur neytenda utan dómstóla.
Neytendur sem vilja kvarta yfir vöru eða þjónustu eiga fyrst að snúa sér til viðkomandi seljanda.
Ef ekki semst við seljandann eiga neytendur kost á að skjóta málum á ýmsum sviðum fyrir kæru- eða úrskurðarnefnd. Þetta er ódýrt og fljótlegt úrræði, en neytandinn þarf yfirleitt að greiða málskotsgjald til að mál hans sé tekið fyrir og er það mishátt eftir nefndum. Vinni neytandi mál fyrir nefnd að hluta eða öllu leyti, fær hann í einhverjum tilvikum málskotsgjaldið endurgreitt.
Sé neytandi ósáttur við úrskurðinn getur hann haldið áfram með málið til dómstóla.
Skráðir og tilkynntir úrskurðaraðilar hjá Menningar- og viðskiptaráðherra, skv. lögum 81/2019 eru nú:
Kærunefnd húsamála er sjálfstæð úrskurðarnefnd sem úrskurðar í ágreiningsmálum t.d. milli leigjanda og leigusala, milli eigenda í fjöleignarhúsum og milli leigusala og leigutaka lóða undir hús í frístundarbyggð.
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa.
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa er sjálfstæð úrskurðarnefnd sem úrskurðar í ágreiningsmálum milli neytenda og seljenda um flestar gerðir samninga um kaup á vöru og þjónustu.
Úrskurðarnefnd bílgreina úrskurðar í ágreiningsmálum milli neytenda og seljenda um hverskonar kvartanir frá neytendum, bæði innanlands og yfir landamæri, vegna kaupa á vöru og/eða þjónustu af fyrirtækjum innan Bílgreinasambandsins.
Samgöngustofa úrskurðar í málum neytenda gagnvart flugfélögum um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum í flugi sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst, seinkað eða flýtt.
Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.
Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki fjallar um ágreining viðskiptamanna við lánastofnanir (t.d. viðskiptabanka eða sparisjóði), verðbréfafyrirtæki eða dótturfyrirtæki þessara fjármálafyrirtækja. Einnig fjallar nefndin um ágreining um yfirfærslur á milli viðskiptareikninga á milli landa. Skilyrði fyrir málsmeðferð nefndarinnar er að samningssamband sé á milli seljanda og viðskiptamanns.
Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.
Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum fjallar um ágreining um bótaskyldu, þar með talið sök og sakarskiptingu á milli neytenda og vátryggingarfélaga.
Upplýsingar um úrskurðaraðila á sviði neytendamála á Evrópska efnahagssvæðinu.