Fara beint í efnið

Neytendamál

Úrskurðarnefndir í neytendamálum

Á ýmsum sviðum eru til úrskurðarnefndir um ágreiningsmál milli kaupenda og seljenda.

Úrskurðarnefndir

Neytendur sem vilja kvarta yfir vöru eða þjónustu eiga fyrst að snúa sér til viðkomandi seljanda.

Ef ekki semst við seljandann eiga neytendur kost á að skjóta málum á ýmsum sviðum fyrir úrskurðarnefnd. Þetta er ódýrt og fljótlegt úrræði, en neytandinn þarf yfirleitt að greiða málskotsgjald til að mál hans sé tekið fyrir og er það mishátt eftir nefndum. Vinni neytandi mál fyrir nefnd að hluta eða öllu leyti, fær hann málskotsgjaldið endurgreitt frá seljanda.

Sé neytandi ósáttur við úrskurðinn getur hann haldið áfram með málið til dómstóla.

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum fjallar um ágreining um bótaskyldu, þar með talið sök og sakarskiptingu milli neytenda og vátryggingafélags.

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki fjallar um ágreining viðskiptamanna við lánastofnanir (til dæmis viðskiptabanka eða sparisjóð), verðbréfafyrirtæki eða dótturfyrirtæki þessara fjármálafyrirtækja. Einnig fjallar nefndin um ágreining um yfirfærslur á milli viðskiptareikninga milli landa. Fjármálaeftirlitið tekur við málskotum.

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála tekur fyrir kærur um ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar. Sá sem á verulegra hagsmuna að gæta getur kært hvort heldur er málsmeðferð eða efni ákvörðunar. Kæra þarf að berast nefndinni innan fjögurra vikna frá því að kæranda varð kunnugt um ákvörðunina.

Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa gefur álit á ágreiningi um réttindi og skyldur um neytendakaup, lausafjárkaup og þjónustukaup.

Úrskurðarnefnd um ferðalög fjallar um kvartanir vegna ferða sem skipulagðar eru af ferðaskrifstofum í samtökum ferðaþjónustunnar.

Úrskurðarnefnd um þjónustu iðnaðarmanna fjallar um kvartanir vegna fasteigna og kaupa á þjónustu iðnaðarmanna.

Úrskurðarnefnd um efnalaugar og þvottahús fjallar um kvartanir vegna þjónustu efnalauga og þvottahúsa.

Úrskurðarnefnd lögmanna fjallar um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun. Einnig um kvörtun á hendur lögmanni vegna háttsemi.

Kærunefnd húsamála fjallar um hvers konar ágreining milli aðila leigusamnings við gerð og/eða framkvæmd samningsins. Nefndin getur einnig tekið fyrir mál að eigin frumkvæði eða eftir ábendingum frá öðrum. Nefndin fjallar einnig um hvers konar ágreining milli eigenda fjöleignarhúsa sem varðar réttindi þeirra og skyldur.

Úrskurðarnefnd um tannlækningar fjallar um kvartanir vegna kaupa á þjónustu tannlækna.

Úrskurðarnefnd bílgreina úrskurðar í ágreiningsmálum milli neytenda og seljenda um hverskonar kvartanir frá neytendum, bæði innanlands og yfir landamæri, vegna kaupa á vöru og/eða þjónustu af fyrirtækjum innan Bílgreinasambandsins.