Fara beint í efnið

Ísland.is

Fyrir Grindavík

Upplýsingar fyrir íbúa Grindavíkur

header

Samstarf í krefjandi verkefnum

4. maí 2024

Grein úr Morgunblaðinu 4.maí 2024

grindavik

Grindvíkingar hafa sýnt einstakt þol og vondirfsku á erfiðum tímum, tímum sem eiga sér vart sögulega hliðstæðu. Breið samstaða er um það í íslensku samfélagi að standa með samfélaginu í Grindavík og stjórnvöld hafa einnig gert sitt besta til þess að mæta þessum fordæmalausu verkefnum. Verkefninu er hvergi nærri lokið og í gær kynnti ég eitt skref til viðbótar í þeirri viðleitni að styðja við samfélagið og íbúa Grindavíkur; stofnun framkvæmdanefndar um málefni Grindavíkur. Frumvarpið var unnið í nánu samstarfi við bæjarstjórn og snýst um að veita aukna aðstoð við skipulagningu mikilvægra verkefna og skipuleggja aðkomu ríkisvaldsins betur.

Ríkisstjórnin samþykkti framlagningu frumvarps um framkvæmdanefndina í gær og verði frumvarpið að lögum mun nefndin fara með stjórn, skipulagningu og samhæfingu aðgerða, tryggja skilvirka samvinnu við sveitarstjórn og opinbera aðila og hafa heildaryfirsýn yfir málefni Grindavíkurbæjar. Bæjarstjórn Grindavíkur óskaði eftir samstarfi um tilhögun og stjórnarfyrirkomulag verkefna sveitarfélagsins við þær óvenjulegu aðstæður sem nú eru uppi í sveitarfélaginu, og lagt er til í frumvarpinu að framkvæmdanefndin starfi tímabundið fram að næstu sveitarstjórnarkosningum árið 2026. Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar mun áfram fara með stjórn sveitarfélagsins, starfsmannahald og bera ábyrgð á og hafa fullt fjárstjórnunarvald yfir lögbundnum og ólögbundnum verkefnum, sem framkvæmdanefnd eru ekki falin sérstaklega.

Helstu verkefni nefndarinnar munu snúa að samfélagsþjónustu, framkvæmdum og viðgerðum á mikilvægum innviðum í Grindavík, t.d. því að starfrækja þjónustuteymi á sviði velferðar- og skólaþjónustu fyrir íbúa Grindavíkurbæjar, m.a. varðandi skóla- og frístundastarf, félagsþjónustu, barnaverndarþjónustu, þjónustu við eldra fólk, fatlað fólk og aðra viðkvæma hópa og stuðning á sviði húsnæðis- og vinnumarkaðsmála. Þetta eru verkefni sem hefur til þessa verið sinnt af Almannavörnum og öðrum stjórnvöldum.

Markmiðið með þessu skrefi er fyrst og fremst að hlúa að íbúum Grindavíkurbæjar, stuðla að farsæld samfélagsins í Grindavík til framtíðar og tryggja öryggi og þjónustu í samræmi við þarfir samfélagsins. Með þessum breytingum er aðkoma ríkisins skýrari en verið hefur þannig að aukinn árangur náist. Yfirstandandi atburðir í Grindavík eru ákaflega krefjandi fyrir íbúa Grindavíkur en með samstöðu og samkennd að leiðarljósi, ásamt því að skipuleggja aðstoð ríkisins betur, mun okkur takast betur að takast á við þessar áskoranir sem Grindavíkureldar hafa haft í för með sér. Áfram Grindavík!