Fara beint í efnið

Ísland.is

Fyrir Grindavík

Upplýsingar fyrir íbúa Grindavíkur

header

Búið er að samþykkja kaup á 126 eignum Grindvíkinga – Þórkötlu hafa borist 711 umsóknir

18. apríl 2024

Eigendur 711 fasteigna hafa sótt um að Þórkatla kaupi íbúðir þeirra eða íbúðarhús í Grindavík.

Grindavík 12 april

Eigendur 711 fasteigna hafa sótt um að Þórkatla kaupi íbúðir þeirra eða íbúðarhús í Grindavík. Stjórn Þórkötlu hóf afgreiðslu umsókna í lok síðustu viku og hefur nú þegar samþykkt kaup á 126 eignum fyrir alls um 9,2 milljarða króna. Frágangur og afgreiðsla einstakra viðskipta mun taka mislangan tíma en stefnt er að því að samþykkja um 150 umsóknir til viðbótar í næstu viku.

Vonast er til að kaupin muni ganga hraðar fyrir sig eftir því sem reynsla kemst á ferlið. Þegar hefur verið gengið frá kaupsamningum við 11 umsækjendur en 115 umsækjendur fá í dag tilkynningu um að umsókn þeirra hafi verið samþykkt í stjórn Þórkötlu. Frágangur er að hefjast vegna kaupsamninga við þennan hóp og ætti greiðsla sem nemur 95% af kaupverði að berast seljendum innan fimm virkra daga frá undirritun og þinglýsingu kaupsamnings. Nokkrir umsækjendur hafa þegar fengið kaupsamningsgreiðsluna millifærða á reikninga sína.

Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu:

„Við vitum að þorri Grindvíkinga er í þröngri stöðu í sínum húsnæðismálum. Margir eru búnir að reyna að festa sér eignir annar staðar og bíða eftir að geta selt. Það er skiljanlegt að þolinmæði þeirra sé lítil og að þau hafi vonast eftir hraðari afgreiðslu sinna umsókna. Fasteignaviðskipti eru í eðli sínu flókið ferli og það er margt sem við þurfum að huga að. Verkefnið í Grindavík er enn flóknara en hefðbundin fasteignaviðskipti þar sem Þórkatla annast yfirtöku og uppgjör lána fyrir hönd seljenda og þarf að útfæra það vinnulag í samráði við 18 ólíka lánveitendur. Það er afar mikilvægt að það ríki jafnræði meðal Grindvíkinga gagnvart þessari björgunaraðgerð stjórnvalda og mörg hundruð einstök fasteignaviðskipti, þar sem málin eru oft mjög ólík, fela í sér áskoranir að þessu leyti. Við erum að vinna í þessu mjög þétt en rétt eins og í fasteignaviðskiptum almennt þá getur sitthvað komið upp sem tefur. Við viljum forðast í lengstu lög að eitthvað fari úrskeiðis við kaup þessara fasteigna sem leiða kann til eftirmála síðar. Algeng spurning sem við höfum fengið er hvort fólk muni fá afgreiðslu sinna mála í sömu röð og það sótti um.Svarið við því er að við erum almennt að taka umsóknir til skoðunar í þeirri röð sem þær bárust, en þar sem málin eru misflókin, þá er ekki hægt að ábyrgjast að afgreiðsla þeirra verði í sömu röð. Við þurfum að gæta mjög vel að því að lögunum sé fylgt og að þessum tugum milljarða sem Þórkatla hefur til ráðstöfunar verði varið á þann hátt sem Alþingi ákvað. Við virðum rétt Grindvíkinga til að láta í sér heyra og við heyrum svo sannarlega í þeim. Við tökum skilaboðunum sem frá þeim berast sem hvatningu til að vinna verkið hratt, en við vitum líka að bæði Grindvíkingar og aðrir landsmenn vilja að við vinnum það vel.“