Fara beint í efnið

Þjónustuskilmálar stofnanavefja

Almennt

Stafrænt Ísland fyrir hönd Fjármála- og efnahagsráðuneytisins er rekstraraðili vefs Ísland.is. Ríkisstofnanir, ráðuneyti og aðrir opinberir aðilar hafa heimild til að reka stofnanavef á Ísland.is. Stofnanavefur er upplýsingavefur til almennings um starfsemi viðkomandi þjónustuþega.

Skilmálar þessir og eftir atvikum samningar og viðaukar sem gerðir eru mynda samkomulag þjónustuveitanda og þjónustuþega um þjónustuna. Skilmálunum er ætlað að skilgreina ábyrgðarsvið aðila þegar kemur að rekstri og viðhaldi á stofnanavef. Skilmálarnir taka enn fremur til rekstrar á vefnum og innleiðingu á þeim verkfærum sem nauðsynleg eru til að þjónustuupplifun notenda sé í samræmi við markmið.

Með því að nota þjónustuna samþykkir þjónustuþegi skilmála þessa.

1.   Skilgreiningar

Í skilmálum þessum, þar sem samhengi texta leyfir, skulu eftirfarandi hugtök skilgreind með þeim hætti sem hér segir:

Askur: Hluti af þjónustu þjónustuveitanda sem gerir þjónustuþega kleift að bjóða upp á netspjall á stofnanavef.

Notandi: Einstaklingur eða lögaðili sem notar stofnanavef

Efnisstefna: Stefna Stafræns Íslands um gæði efnis og leiðakerfi Ísland.is og stofnanavefja, sjá hér.

Hönnunarkerfi: Samantekt leiðbeininga, reglan og krafna sem gerðar eru til útlits verkefna Ísland.is og gegnir mikilvægu hlutverki hvað varðar aðgengismál, sjá hér.

Vefstjóri: Starfsmaður þjónustuþega sem hefur yfirumsjón með stofnanavef.

Stofnanaspjall: Netspjall, annað en Askur, sem þjónustuþegi hýsir og rekur sjálfstætt án nokkurrar aðkomu þjónustuveitanda.

Stofnanavefur: Undirvefur á Ísland.is þar sem þjónustuþegi hefur forræði yfir, viðheldur og annast framsetningu efnis.

Þjónustan: Hýsing og rekstur stofnanavefs og Asks

Þjónustufulltrúi: Starfsmaður þjónustuþega sem aðstoðar notendur í þjónustukerfi eða símaveri.

Þjónustuþegi: Opinber aðili, og ábyrgðarmaður upplýsinga sem birtast á stofnanavef.

Þjónustuveitandi: Stafrænt Ísland í umboði fjármála- og efnahagsráðuneytis.

2.   Almennt

Þjónustuveitanda er heimilt að synja umsókn um stofnanavef ef þjónustuveitandi telur m.a. að starfsemi umsækjanda krefjist umfangsmikillar sérvinnslu eða starfsemi umsækjandi sé þess eðlis að hún samræmist ekki efnisstefnu eða hlutverki stofnanavefja Stafræns Íslands.

Þjónustuþega er heimilt að afturkalla umsóknina án skýringar.

Á grundvelli samkomulags aðila um þjónustuna setur þjónustuveitandi upp grunn að vefsvæði þjónustuþega á Ísland.is og leggur þjónustuþega til sérfræðiaðstoð fyrir almenna aðlögun og uppsetningu efnis.

Geri þjónustuþegi kröfur um sértækar lausnir eða hönnun þjónustuvefs, skal gera sérstakan samning eða samkomulag þar um milli þjónustuveitanda og þjónustuþega.

Þjónustuþegi tilnefnir vefstjóra sem hefur umsjón með uppsetningu vefsins af hálfu þjónustuþega.

Þegar þjónustuþegi telur að stofnanavefur uppfylli kröfur um framsetningu upplýsinga og virkni, birtir þjónustuveitandi vefinn.

3.   Rekstur og þjónusta

Þjónustuveitandi ber ábyrgð á grunnrekstri stofnanavefs þjónustuþega. Undir grunnrekstur fellur hýsing, vefumsjón, reglulegar uppfærslur á hugbúnaði, lítilsháttar breytingar á útliti vefsíðu, öryggisúttektir og bilanavakt.

Þjónustuveitandi sér um markaðs- og kynningarmál Ísland.is með almennum hætti og ber ábyrgð á sýnileika og þekkingu almennings á þeim þjónustuleiðum sem þar er að finna, þar með talið stofnanavefjum. Auglýsingar og kynningar á þjónustu þjónustuþega á stofnanavef verða undirbúnar og framkvæmdar í samstarfi milli aðila.

4.   Upplýsingar á stofnanavef

Aðilar skulu leitast við að hafa upplýsingar á stofnanavef sem og tilvísanir í réttarheimildir og upplýsingasöfn áreiðanlegar og réttar.

Þjónustuþegi ber ábyrgð á því efni og þeim upplýsingum sem birtar eru á stofnanavef. Allt birt efni skal samræmast efnisstefnu þjónustuveitanda, m.a. skal það vera tiltækt á íslensku og ensku og hæft til spilunar í vefþulu. Sérfræðingar hjá þjónustuveitanda skulu veita ráðgjöf varðandi efnisvinnslu. Óheimilt er að birta á stofnanavef meiðandi efni eða annað það efni sem brýtur í bága við lög og reglur.

Þjónustuþegi skal leitast við að fjarlægja eða merkja úreldar upplýsingar með vísun í nýrri útgáfu.

Við birtingu upplýsinga á stofnanavef verða upplýsingarnar aðgengilegar öllum notendum Ísland.is

Þjónustuveitandi tilkynnir þjónustuþega skriflega ef hann verður þess áskynja að notkun þjónustuþega á þjónustunni brýtur í bága við skilmála þessa, s.s. með birtingu á meiðandi efni eða efni sem brýtur í bága við lög og reglur. Þjónustuþega skal veittur tímabundinn frestur til að bæta úr slíkum ágalla. Hafi viðkomandi ágalli ekki verið lagfærður að liðnum tilkynntum fresti er þjónustuveitanda heimilt að rjúfa aðgang birtingaraðila að þjónustunni án frekari tilkynninga, þar til bætt hefur verið úr ágallanum.

5.   Netspjall á stofnanavef

Þjónustuþega er heimilt að setja upp netspjall til samskipta við notendur á stofnanavef og getur annað hvort notað Ask eða eigið stofnanaspjallmenni.

5.1. Askur

Þjónustuveitandi ber ábyrgð á grunnrekstri Asks. Undir grunnrekstur fellur hýsing, vefumsjón, reglulegar uppfærslur á hugbúnaði, lítilsháttar breytingar á útliti Asks, öryggisúttektir og bilanavakt. Þjónustuþegi ber ábyrgð á því efni og þeim upplýsingum sem birtar eru í Ask á stofnanavef. Samskipti með Ask eru annað hvort á grundvelli sjálfvirkrar svörunar eða með netspjalli við þjónustufulltrúa.

Þjónustuþegi skal upplýsa notendur um að samskipti með Ask sem fela í sér sjálfvirka svörun séu eingöngu ætluð fyrir almennar fyrirspurnir og aðstoð við notendur. Jafnframt skal þjónustuþegi beina þeim tilmælum til notenda að gefa ekki upp persónugreinanlegar upplýsingar í sjálfvirku spjalli með Ask. Sjálfvirku spjalli með Ask er eytt að 30 dögum liðnum.

Í þeim tilfellum sem notandi á samskipti í netspjalli með Ask við þjónustufulltrúa skal þjónustuþegi tryggja að öll samskiptin séu skráð í þjónustukerfi þjónustuþega. Komi til þess að fyrirspurnir sem berast með Ask krefjist formlegra viðbragða af hálfu þjónustuþega skal vista samskiptin í skjalakerfi (málaskrá) þjónustuþega og svara þeim þaðan. Við lok erindis eða flutning þess í skjalakerfi skal loka fyrirspurn í þjónustukerfi og er þeim þá eytt að 90 dögum liðnum.

Við vistun samskipta skal gætt að því að fylgja meginreglu stjórnsýsluréttar um varðveislu gagna í stjórnsýslunni, komi t.a.m. til þess að upplýsingum um stjórnsýslumál sé einvörðungu komið áleiðis við þjónustuþega með Ask.

5.2. Stofnanaspjall

Stofnanaspjall er alfarið í eigu og ábyrgð þjónustuþega. Þess skal geta skilmerkilega á stofnanavef að það sé ekki hluti af lausn þjónustuveitanda.

Þjónustuþegi ber fulla ábyrgð á öllu efni sem birtist í stofnanaspjalli, rekstri þess og tengingu við stofnanavef.

6.   Hönnun

Hönnun stofnanavefs skal vera í samræmi við útlit á vef Ísland.is og byggja á hönnunarkerfi Ísland.is

7.   Öryggismál

Þjónustuveitandi ber ábyrgð á að viðhafa viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja öryggi þjónustunnar. Öryggisráðstafanir skulu taka mið af nýjustu tækni, kostnaði við innleiðingu, umfangi, samhengi, tilgangi vinnslu og áhættu á öryggisbresti. 

Þjónustuþega og þjónustuveitanda ber að tilkynna gagnaðila sem fyrst ef grunur leikur á óviljandi, óheimilli eða ólöglegri vinnslu upplýsinga eða ef grunur er uppi um hvers konar öryggisbrest við meðferð á upplýsingum sem fram koma á stofnanavef. Tilkynninguna skal senda á almennt netfang viðkomandi aðila (í tilviki þjónustuþega, island@island.is). Í slíkri tilkynningu skal viðkomandi aðili lýsa eðli brestsins, þ. á m. áætluðum fjölda skráðra einstaklinga sem það varðar og dreifingu upplýsinganna. Þá skal viðkomandi aðili lýsa líklegum afleiðingum brestsins og þeim ráðstöfunum sem hann hefur gert eða fyrirhugað að gera vegna öryggisbrestsins.

8. Ábyrgð

Þjónustuveitandi ber ekki í neinum tilvikum ábyrgð á tjóni sem rekja má til notkunar á þjónustunni eða þeim upplýsingum sem birtar eru á stofnanavef. Þetta á einnig við um tilvísanir og tengla í efni utan stofnanavefs. Þá ber þjónustuveitandi ekki í neinum tilvikum ábyrgð á tjóni sem rekja má til þess að ekki er hægt að nota stofnanavef, um skemmri eða lengri tíma, vegna bilana í hug- eða vélbúnaði þjónustuveitanda eða tengdum hug- eða vélbúnaði þriðja aðila.

Verði einhver mistök, truflanir eða tafir á þjónustu þjónustuveitanda skal ábyrgð hans takmarkast við að lagfæra slík mistök, truflanir eða tafir, svo fljótt sem auðið er

Þjónustuþegi skal halda þjónustuveitanda skaðlausum af hvers konar tjóni, kröfum, aðgerðum, skaða, ábyrgðum, sektum, refsingum og kostnaði (þ.m.t. lögfræðikostnaði) sem þjónustuveitandi kann að verða fyrir vegna eða í tengslum við aðgerðir eða aðgerðarleysi þjónustuþega. Skaðleysisábyrgð þessi takmarkar ekki með neinum hætti önnur samningsbundin eða lögbundin réttindi sem þjónustuveitandi kann að njóta gagnvart þjónustuþega og hugsanlegar bætur eða skaðleysisgreiðslur réttlæta ekki brot á skyldum og skuldbindingum þjónustuþega.

Þjónustuveitandi ber eingöngu ábyrgð á tjóni þjónustuþega ef það má rekja til stórkostlegs gáleysis eða ásetnings starfsmanna þjónustuveitanda. Ábyrgð þjónustuveitanda nær í slíku tilviki eingöngu til beins tjóns en aldrei til afleidds tjóns sem verða kann af þessum sökum, s.s. rekstrarstöðvunar, tapaðra viðskipta eða álitshnekkis.

9. Greiðslur

Þjónustan er aðgengileg þjónustuþega án endurgjalds.

Komi til breytinga á gjaldtöku verða þær kynntar fyrir þjónustuþega 90 dögum áður en þær taka gildi.

10. Rekstraröryggi

Aðilar skuldbinda sig til að stuðla að öruggum rekstri þjónustunnar og vinna jafnframt sameiginlega að viðgerðum ef rekstrartruflanir verða. 

Verði þjónustuþegi þess áskynja að þjónustan sé að einhverju leyti í ólagi ber honum að tilkynna þjónustuveitanda um það án tafar. Þjónustuþega er í slíkum tilvikum að jafnaði óheimilt að nota þjónustuna þar til þjónustuveitandi hefur lokið athugun á þjónustu sinni.

Ef nauðsynlegt reynist að loka þjónustunni tímabundið vegna viðhalds á kerfum, uppfærslu skráa, og/eða annarra tæknilegra aðgerða, vegna reksturs þjónustunnar, skal þjónustuveitandi tilkynna þjónustuþega um slíkt eins fljótt og kostur er en þó með a.m.k. sólahrings fyrirvara.

Þjónustuveitanda er heimilt að rjúfa aðgang að þjónustunni án viðvörunar ef slíkt reynist nauðsynlegt vegna gruns um öryggisbrest.

Ef þjónustuþegi eða þjónustuveitandi verður fyrir einhverjum hindrunum við að uppfylla samkomulagið gagnvart gagnaðila af ástæðum sem honum eru óviðráðanlegar, þá frestast viðkomandi skyldur til þess tíma er slíkar hindranir eru afstaðnar og aðilar samkomulagsins geta uppfyllt umsamdar skyldur sínar.

11. Uppsögn

Þjónustuveitanda og þjónustuþega er heimilt að segja upp þjónustunni. Skal uppsögnin vera skrifleg og skal þjónustu þá hætt tólf (12) mánuðum eftir móttöku tilkynningar um uppsögn. Allar samningsskyldur aðila haldast á uppsagnarfresti.

Þjónustuveitanda er þó heimilt að hætta að veita þjónustuþega þjónustu án fyrirvara ef þjónustuveitanda er það skylt samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Hvorki þjónustuveitanda eða þjónustuþegi þarf að tilgreina ástæðu fyrir ákvörðun sinni um að hætta þjónustunni og skal ekki bera neinn kostnað vegna beitingar slíks réttar. 

12. Persónuvernd

Persónuverndarstefna þjónustuveitanda á vef Ísland.is uppfyllir ákvæði laga um persónuvernd nr. 90/2018 sem og 28. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um upplýsingagjöf til notenda á vef sýslumanna.

Þjónustuþegi veitir ekki persónugreinanlega upplýsingagjöf til notenda stofnanavefs. Fari fram vinnsla persónuupplýsinga með Ask eða stofnanavef telst þjónustuþegi vera ábyrgðaraðili vinnslunnar í skilningi laga og tryggir þar með m.a. öryggi upplýsinganna, sbr. umfjöllun í persónuverndarstefnu þjónustuþega.

Þjónustuþegi skal birta persónuverndarstefnu á stofnanavef sem uppfyllir ákvæði laga um persónuvernd nr. 90/2018 sem og 28. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016.

13. Framsal réttinda og skyldna

Þjónustuþega er með öllu óheimilt að framselja eða flytja að hluta eða fullu réttindi sín eða skyldur samkvæmt skilmálum þessum, nema að fengnu skriflegu samþykki þjónustuveitanda.

Þjónustuveitandi kann að nýta sér þjónustu umboðsaðila eða undirverktaka til að sinna skyldum sem á honum hvíla skv. skilmálum þessum en slík vinna skal þó ávallt unnin á ábyrgð þjónustuveitanda gagnvart þjónustuþega. Um notkun undirvinnsluaðila fer samkvæmt persónuverndarskilmálum þjónustuveitanda.

14. Breytingar á skilmálum

Þjónustuveitandi áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum og skulu þær tilkynntar þjónustuþega í rafrænni tilkynningu sem send er á uppgefið netfang þjónustuþega eða með öðrum sannanlegum hætti a.m.k. hálfum mánuði áður en ný eða breytt ákvæði taka gildi. Á www.island.is er jafnframt tilkynnt um nýja og/eða uppfærða skilmála áður en þeir taka gildi.

Þjónustuveitanda er heimilt að gera breytingar á skilmálum með skemmri fyrirvara ef slíkar breytingar á skilmálum eru nauðsynlegar samkvæmt lögum. Í slíkum tilvikum þar sem fyrirvarinn kann að vera skemmri skal þjónustuveitandi leitast við að tilkynna slíkar breytingar eins fljótt og mögulegt er.

Skilmálar þessir voru síðast uppfærðir: 05.12.2022

Þjónustuaðili

Staf­rænt Ísland