Eftirlit með öryggi vara og þjónustu
Öryggi vöru og þjónustu er aðalatriði fyrir neytendur. Nokkrir aðilar koma að öryggiseftirliti.
Öryggi matvæla
Matvælastofnun fer með yfirumsjón matvælaeftirlits. Þá eru rannsóknir á matvælum meðal annars gerðar hjá Matís ohf.
Heilbrigðisnefndir undir yfirumsjón Matvælastofnunar hafa opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla, að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum. Í umboði heilbrigðisnefnda starfa heilbrigðisfulltrúar hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga.
Aðrar vörur
Vörur sem seldar eru á Evrópska efnahagssvæðinu eiga að uppfylla kröfur sem settar eru í lögum um öryggi vörunnar. Framleiðendur, innflytjendur og aðrir seljendur vöru bera ábyrgð á að hún uppfylli öll skilyrði sem um hana gilda. Ef vörur uppfylla ekki skilyrði um öryggi ber að afturkalla þær og leggja bann við frekari sölu.
Hér á landi fer Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) með mál er varða almennt öryggi vara og annast markaðseftirlit. Það er einnig hlutverk HMS að annast heildarskipulag og samhæfingu opinberrar markaðsgæslu á Íslandi.
Á vefsíðu Vöruvaktarinnar geta neytendur nálgast allar helstu upplýsingar og fræðslu um vörur sem ber að varast, á einum stað. Þar er einnig hægt að senda inn ábendingar um vörur sem mögulega uppfylla ekki kröfur
Öryggi í umhverfi
Umhverfis- og orkustofnun fer, í samstarfi við heilbrigðiseftirlit/-fulltrúa á landinu öllu, með mál er varða heilsusamlegt umhverfi, aðbúnað og öryggi innanhúss, hjá stofnunum og fyrirtækjum sem almenningur sækir þjónustu til. Umhverfis- og orkustofnun hefur einnig eftirlit með öryggi leiksvæða og sundstaða.
Slysavarnir
Embætti landlæknis er faglegur ráðgjafi stjórnvalda um slysavarnir. Starfsemi embættis landlæknis á sviði slysavarna snýr að fræðslu, ráðgjöf, rannsóknum og vinnu við forvarnaverkefni. Markmiðið er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum slysa.
Vert að skoða
Lög og reglugerðir
Þjónustuaðili
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun