Kvörtunarfrestur neytenda
Kvörtunarfrestur er eitt – ábyrgð er annað. Reynist vara gölluð á neytandinn að kvarta sem fyrst til seljanda, tilkynna í hverju gallinn felst og að hann muni bera gallann fyrir sig.
Kvörtunarfrestur
Það getur komið seljanda vel að þú kvartir. Seljandinn fær þá upplýsingar um hluti sem hann vissi ekki af og þarf að lagfæra. Þannig gætir þú hagsmuna beggja.
Ef vara er gölluð eða seljandinn hefur gefið villandi upplýsingar ber neytanda að láta vita sem fyrst. Frestur neytanda til að leggja fram kvörtun er þó aldrei styttri en tveir mánuðir frá því að hann varð galla var.
Tilkynningu um galla má beina til seljanda og þess sem samkvæmt samningi við seljanda hefur tekið að sér að bæta úr gallanum.
Í tilkynningu um galla þarf að koma fram í hverju gallinn felst og að neytandinn muni bera gallann fyrir sig, en ekki er nauðsynlegt fyrir neytanda að geta þess í tilkynningunni hvaða kröfur hann hyggst gera vegna gallans.
Hámarksfrestur til þess að leggja fram kvörtun um galla er tvö ár frá kaupum, nema varan, eða hlutum hennar, sé ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um vörur. Þá er fresturinn fimm ár.
Þessi takmörk gilda þó ekki ef:
seljandi í ábyrgðaryfirlýsingu eða öðrum samningi hefur tekið á sig ábyrgð vegna galla í lengri tíma, eða
seljandi hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans á annan hátt er ekki í samræmi við heiðarleika og góða trú.
Reglur um kvörtunarfrest gilda óháð því hvort um notaða eða nýja vöru er að ræða. Kvörtunarfresturinn er lögbundinn og í viðskiptum við neytenda má seljandinn ekki semja um styttri frest.
Galli sem upp kemur innan sex mánaða frá þeim degi sem neytandinn tók við vörunni er talinn hafa verið til staðar við kaupin, ef annað verður ekki sannað af seljanda. Þetta gildir ekki ef ljóst þykir að bilun eða skemmd stafi af meðferð vörunnar eftir að hún var keypt. Seljandinn ber líka ábyrgð á galla sem kemur fram síðar, en innan kvörtunarfrestsins, ef hann stafar af ástæðu sem var til staðar við afhendingu.Neytandi ber sönnunarbyrði fyrir því að galli vöru hafi verið til staðar við kaupin eftir að sex mánuði eru liðnir frá kaupunum.
Ábyrgð
Lýsi seljandinn yfir ábyrgð verður ábyrgðin að veita neytanda ríkari rétt en lög segja til um, til dæmis lengri kvörtunarfrest, að varan hafi tiltekna eiginleika eða að hana megi nota með ákveðnum hætti. Seljandi á að upplýsa neytanda um gildissvið ábyrgðarinnar og hvaða skilyrði eru sett.
Ef ekki er gefið upp til hvers ábyrgðin tekur má ætlast til þess að seljandi beri, allan ábyrgðartímann, sönnunarbyrðina á því að ástæðu galla megi ekki rekja til vanefnda hans.
Ábyrgð er bindandi fyrir seljandann með þeim skilyrðum sem fram koma í ábyrgðaryfirlýsingunni og í auglýsingum tengdum henni.
Kassakvittanir
Til þess að kvarta þarft þú að geta sannað viðskiptin. Geymdu kassakvittanir!
Til þess að kvarta undan galla þarf að geta sannað viðskiptin. Einfaldast er að sýna kassakvittun, þó svo að aðrar leiðir séu líka færar.
Algengt er að letur á kassakvittunum hverfi með tímanum. Ef um er að ræða kaup sem skipta miklu máli getur verið ráðlegt að taka ljósrit af kvittuninni.
Kröfur neytandans
Ef vara er gölluð og gallinn verður ekki rakinn til sakar af hálfu neytanda eða aðstæðna sem hann varða, getur neytandi krafist þess að seljandi bæti úr gallanum á eigin kostnað eða krafist afhendingar á nýjum hlut, valdi það seljanda ekki ósanngjörnum kostnaði eða óhagræði.
Seljandi á ekki rétt á að bæta úr sama galla eða afhenda nýja vöru vegna sama galla oftar en tvisvar, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.
Ef neytandi hefur valið að krefjast úrbóta getur seljandi ekki ákveðið að afhenda nýja vöru, heldur verður hann að hlíta vali neytandans, nema að eitthvað standi því í vegi eða það hafi í för með sér ósanngjarnan kostnað fyrir seljanda. Í sumum tilfellum getur neytandi krafist afsláttar af kaupverði eða endurgreiðslu (riftun kaupa), nema seljandi bjóði fram úrbætur eða nýja vöru.
Skoðunargjald
Ef ekki reynist um galla að ræða við bilanaleit, getur seljandi krafist greiðslu fyrir þær athuganir sem nauðsynlegar voru til að komast að raun um hvort vara væri gölluð, að því tilskildu að hann hafi fyrirfram vakið athygli neytandans á slíkri gjaldtöku.