Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Nýskráning vinnuvélar eða vinnutækis

Umsókn um skráningu vinnuvélar/tækis

Áður en vinnuvél er tekin í notkun þarf að skrá hana hjá Vinnueftirlitinu.

Skráningarferli

Skráning vinnuvéla og tækja fara fram rafrænt á Mínum síðum á Island.is

Einungis er heimilt að skrá vinnuvélar og tæki sem uppfylla öryggiskröfur sem koma fram í reglugerð um vélar og tæknilegan búnað, samanber einnig 48. grein og 48. grein a. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Framleiðendur véla og tækja sem ábyrgjast að þau uppfylli þessar kröfur festa á þau CE-merki sem þarf bæði að vera greinilegt og óafmáanlegt. Vinnueftirlitið kann að óska eftir EB-samræmisyfirlýsingu og tækniskjölum vegna vélar eða tækis leiki vafi á að þau hafi verið framleidd í samræmi við framangreindar öryggiskröfur.

Skrá þarf upplýsingar um:

  • Eiganda: nafn, kennitölu, heimilisfang og símanúmer

  • Umráðamann ef annar en eigandi:: nafn, kennitölu, heimilisfang og símanúmer

  • Innflytjanda: nafn, kennitölu, heimilisfang og símanúmer

  • Vélina eða tækið:

    • Framleiðsluland, framleiðslunúmer, tegund og gerð

    • Flokkur, þyngd, lyftigetu og stærð hreyfils. Gott er að styðjast við skráningarhandbókina (pdf).

    • Hvort að vélin eða tækið hafi CE-merkingu sem er greinileg og óafmáanleg. Athugið að CE-merking er skilyrði fyrir skráningu.

Götuskráning: Hægt er að sækja um skráningu vinnuvélar í umferð um leið og vélin er nýskráð. Einnig er hægt að sækja um götuskráningu síðar.

Úthlutun skráningarnúmers

Þegar Vinnueftirlitið hefur móttekið beiðni um skráningu vinnuvélar eða tækis er farið yfir hvort þau séu réttilega CE-merkt. Kann að vera þörf á að óska eftir frekari gögnum frá innflytjanda til að sannreyna að svo sé til dæmis með EB-samræmisyfirlýsingu eða viðeigandi tækniskjölum.

Framleiðandi á að hafa þessi gögn tiltæk hafi hann framleitt umrædda vél eða tæki í samræmi við reglugerð um vélar og tæknilegan búnað og aðrar þær reglur sem geta átt við. Enn fremur kann að koma til skoðunar sérfræðings stofnunarinnar í vinnuvélaeftirliti til að sannreyna að vélin eða tækið uppfylli umræddar öryggiskröfur.

Þegar Vinnueftirlitið hefur metið hvort að umrædd vél eða tæki hafi verið réttilega CE-merkt og uppfylli viðeigandi öryggiskröfur verður skráningarnúmer vélarinnar aðgengilegt á Mínum síðum á Island.is. Tilkynning er einnig send í tölvupósti á skráð netfang á Mínum síðum.

Þá er hægt að tollafgreiða vinnuvélina eða tækið og koma því á vinnustað.

Skoðun og afhending númers

Þegar vélin er komin á vinnustað þarf að hafa samband við Vinnueftirlitið á netfangið vinnueftirlit@ver.is. Sérfræðingur í vinnuvélaeftirliti hefur í framhaldi samband til að skoða vélina og setja skráningarnúmer á hana.

Afgreiðslutími

Þegar liggur fyrir að vinnuvél eða tæki sé CE-merkt í samræmi við reglugerð um vélar og tæknilegan búnað er unnt að samþykkja skráninguna og gefa út skráningarnúmerið.

Tryggingar

Tryggingar eru ekki skilyrði fyrir skráningu. Það er á ábyrgð eigenda að tryggja vélar og tæki.

Kostnaður

Skráningin kostar 30.988 krónur

Innheimt er með greiðsluseðli frá Fjársýslunni.

Umsókn um skráningu vinnuvélar/tækis

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið