Ábyrgðarsjóður launa
Ábyrgðarsjóður launa tryggir greiðslur til launafólks og lífeyrissjóða vegna vangoldinna greiðslna við gjaldþrot atvinnurekanda.
Ábyrgðartímabil
Ábyrgð sjóðsins nær til krafna sem hafa gjaldfallið á síðustu 18 mánuðum fyrir gjaldþrotaúrskurð vinnuveitenda eða réttur hefur unnist til þeirra á því tímabili. Heimilt er að miða við frestdag ef sú niðurstaða er hagstæðari fyrir kröfuhafa.
Í sérstökum undantekningartilvikum er sjóðnum heimilt að ábyrgjast kröfur sem gjaldfallið hafa utan ábyrgðartímabils að því tilskildu að eðlilega hafi verið staðið að innheimtu þeirra. Beiting þessarar heimildar skal þó ekki hafa í för með sér að ábyrgðartímabil verði lengra en 18 mánuðir.
Ábyrgð án gjaldþrotaskipta
Stjórn Ábyrgðasjóðs launa er heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að ábyrgjast kröfur án undangenginna gjaldþrotaskipta á búi vinnuveitanda, liggi fyrir að vinnuveitandi hafi sannanlega hætt rekstri og tilraunir kröfuhafa til að koma fram gjaldþrotaskiptum hafi ekki borið árangur eða að kostnaður við að koma fram gjaldþroti yrði að mati sjóðsstjórnar óeðlilega mikill.
Undanþágur frá ábyrgð
Kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota fyrirtækis njóta ekki ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa, sama gildir um eigendur að verulegum hlut í fyrirtækinu.
Heimilt er að hafna kröfum maka og annarra skyldmenna framkvæmdastjóra, stjórnarmanna eða eigenda ef sýnt er að kröfur þeirra eru óréttmætar með tilliti til þessara tengsla.
Einnig er heimilt að lækka greiðslu úr sjóðnum miðað við gerða kröfu ef krafan telst óeðlilega há miðað við það starf sem kröfuhafi gegndi, starfstíma hans og þau launakjör sem tíðkast í viðkomandi starfsgrein eða eftir atvikum í hinu gjaldþrota fyrirtæki.