Reglugerð um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför
23. júní 2023
Viðbótarstyrkur ef sótt er um innan frests
Ný reglugerð um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför á grundvelli laga um útlendinga hefur verið birt í stjórnartíðindum. Hún kemur í stað eldri reglugerðar um enduraðlögunarstyrk og ferðastyrk til umsækjanda um alþjóðlega vernd. Helstu nýmæli reglugerðarinnar eru tvenns konar.
Viðbótarstyrkur
Annars vegar verður heimilt að greiða útlendingi viðbótarstyrk fyrir að sækja um aðstoð við sjálfviljuga heimför áður en frestur til heimfarar er liðinn. Viðbótarstyrkurinn getur numið 500 til 1000 evrum eftir því til hvaða heima- eða viðtökuríkis viðkomandi ber að fara.
Útlendingar sem staddir eru hér á landi við gildistöku reglugerðarinnar geta fengið greiddan viðbótarstyrk þrátt fyrir að frestur þeirra til sjálfviljugrar heimfarar sé liðinn. Skilyrði er að þeir óski eftir aðstoð við sjálfviljuga heimför innan 60 daga frá því að reglugerðin öðlaðist gildi, það er fyrir 20. ágúst 2023.
Ríki A og ríki B
Hins vegar er Útlendingastofnun falið það hlutverk að flokka heima- eða viðtökuríki útlendinga í A og B ríki. Útlendingar sem eiga að snúa aftur til ríkis í flokki A eiga rétt á hærri enduraðlögunarstyrkjum en þeir sem koma frá ríki í flokki B.
Þar til annað hefur verið ákveðið munu þau ríki sem sérstaklega voru talin upp í eldri reglugerð (Afganistan, Íran, Írak, Nígería, Sómalía, Palestína og Pakistan) falla í flokk A. Önnur ríki falla í flokk B.
Nánar um Aðstoð við sjálfviljuga heimför á vef Útlendingastofnunar.