Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Tryggingastofnun Forsíða
Tryggingastofnun Forsíða

Tryggingastofnun

Rannsókn á stöðu kvenna með örorkulífeyri

20. ágúst 2025

Niðurstöður samanburðarrannsóknar á reynslu og aðstæðum kvenna 50 – 66 ára með örorkulífeyri sýna að þær eru líklegri en konur sem ekki eru með örorkulífeyrisgreiðslur til að hafa unnið við erfiðar aðstæður á vinnumarkaði, borið ábyrgð á uppeldi barna sinna, orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og hafa átt við fjárhagsörðugleika að stríða. Þetta má m.a. sjá í skýrslu Félagsvísindastofnunar sem var unnin að beiðni Tryggingastofnunar (TR) í samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðuneytið, velferðarvaktina og Vinnueftirlitið og var kynnt á málþingi í dag.

Forstjóri TR, Huld Magnúsdóttir fjallaði um tölfræði almannatrygginga í ávarpi sínu og þar kom fram að konur eru 61% þeirra sem eru með örorkulífeyrir og að á aldursbilinu 60-66 ára eru 33% allra kvenna með örorku. Hlutfall kvenna eftir 55 ára aldur með örorkulífeyrir almannatrygginga sem hlutfall kvenna búsettum á Íslandi er í sumum aldursbilum allt að 26%. Þetta þýðir að í sumum árgöngum eftir sextugt er fjórða hver kona á Íslandi öryrki. Þá er 60% allra kvenna með örorkulífeyrir eldri en 50 ára. Stærsti hópurinn með örorkulífeyrir sem fer af vinnumarkaði eru konur yfir fimmtugt. Þessi tölfræði auk breytinga á almannatryggingakerfinu sem taka gildi 1. september nk. voru aðal hvatar þess að TR hafði forgöngu um rannsókn á stöðu kvenna með örorkulífeyrir eftir fimmtugt. “ Um er að ræða fjölmennan hóp og því um samfélagslegt mál að ræða. Það er nauðsynlegt til að meta áhrifin af nýju kerfi að fá grunnlínu upplýsinga svo við getum tekið afstöðu til þess hvort að kerfisbreytingin hafði áhrif, sérlega þar sem margt nýtt er í farvatninu svo sem hvatar til atvinnuþátttöku fólks með örorkumat, nýtt samþætt sérfræðimat, samhæfingarteymi og aukin þjónusta”. sagði Huld á málþinginu. 

 

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur BSRB benti m.a. í ávarpi sínu á tengingu niðurstaðna rannsóknarinnar varðandi álag á konum á vinnumarkaði, umönnunarábyrgð og kynbundið ofbeldi við áherslur kvennaársins þar sem krafist er úrbóta þessara atriða. Í rannsókninni megi glögglega sjá hver áhrif af erfiðum aðstæðum á vinnumarkaði og heima fyrir eru á konur sem geti svo leitt til þess að þær fari mun frekar á örorkulífeyri en karlar.  

 

Í ávarpi sínu ræddi forstjóri Vinnueftirlitsins Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir um að niðurstöður rannsóknarinnar bendi til að víða sé pottur brotinn á vinnustöðum svarenda í könnuninni, þar sem um og yfir 33% höfðu átt í erfiðum samskiptum eða orðið fyrir andlegu ofbeldi á vinnustað. Hún vakti m.a. athygli á vitundarvakningu sem Vinnueftirlitið hefur staðið fyrir í samstarfi við félags – og húsnæðismálaráðuneytið. 

Ari Klængur Jónsson, verkefnastjóri hjá Félagsvísindastofnun kynnti helstu niðurstöður rannsóknarinnar. 

 

Einhleypar með ábyrgð á uppeldi barna 

Hærra hlutfall kvenna með örorkulífeyri eru einhleypar, hafa skilið eða slitið sambúð og eru einstætt foreldri en konur í samanburðarhópi og karlar með örorkulífeyri. Þessi hópur er líklegri til að eiga börn með sem höfðu verið langveik eða greind  með röskun eða skerðingu en samanburðrahópurinn og þær sinntu umönnun barnanna alfarið mun oftar og það sama átti við þegar borið er saman við karla á sama aldri með örorkulífeyrisgreiðslur. 

  

Í vaktavinnu og krefjandi aðstæður í vinnu 

Helstu niðurstöður sýna að konur með örorkulífeyrisgreiðslur hafa á starfsferli sínum verið í vaktavinnu, gjarnan unnið í óþægilegum líkamsstellingum og notað endurteknar hreyfingar í vinnu auk þess að þurfa að fást við krefjandi félagslega eða tilfinningalega erfiðar aðstæður í vinnu í meira mæli en konur sem ekki eru með örorkulífeyrisgreiðslur. 

 

Þolendur ofbeldis 

Konur með örorkulífeyrisgreiðslur eru líklegri til að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, bæði sem barn og fullorðin, en konur í samanburðarhópi. Jafnframt höfðu þær oftar orðið fyrir einelti eða andlegu ofbeldi.  

 

Erfiðar fjárhagsaðstæður 

Konur með örorkulífeyrisgreiðslur voru líklegri til að hafa verið sagt upp leiguhúsnæði eða misst eigið íbúðarhúsnæði. Þá sögðu mun fleiri konur í rannsóknarhópi en konur í samanburðarhópi að það hefði reynst frekar eða mjög erfitt að ná endum saman fjárhagslega fyrir fjölskylduna áður en þær fóru fyrst að finna fyrir heilsufarsvanda samanborið við sl. tíu ár hjá samanburðarhópnum. 

 

Framkvæmd og aðferðafræði 

Rannsókninni sem skýrslan byggir á var ætlað að afla aukinnar þekkingar á því hvaða ástæður gætu legið að baki háu hlutfalli kvenna á aldrinum 50–66 ára sem fá örorkulífeyri. Aðferðafræði rannsóknarinnar byggir á samanburði á aðstæðum og reynslu fólks eftir því  hvort um sé að ræða karl eða konu sem fær örorkulífeyri annars vegar og hins vegar með samanburði á konum sem fá örorkulífeyri og úrtaki kvenna á sama aldri úr netpanel Félagsvísindastofnunar, svokallaður samanburðarhópur. 

 

Niðurstöður rannsóknarinnar varpa  ljósi á oft erfiðar aðstæður og bakgrunn kvenna sem þurfa á örokulífeyrisgreiðslum að halda síðustu ár starfsferils síns. Í henni má þar að auki finna mikið af upplýsingum um aðstæður kvenna og karla á örorkulífeyri og konur í samanburðarhópi á aldrinum 50 – 66 ára.