Fara beint í efnið
Tryggingastofnun Forsíða
Tryggingastofnun Forsíða

Tryggingastofnun

Rannsókn á örorku kvenna og karla á aldrinum 50 til 66 ára

16. janúar 2025

Tryggingastofnun, Velferðarvaktin, Vinnueftirlitið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið standa saman að rannsókn á örorkulífeyri kvenna og karla á aldrinum 50 til 66 ára.

Teikning-Hjon - tryggingastofnun

TR hefur sent út kynningar- og samþykktarbréf til fólks á þessu aldursbili sem hefur fengið örorkumat á undangengnum fimm árum, þar sem þeim er boðið að taka þátt í rannsókn. Þau sem samþykkja þátttöku fá sendan spurningalista frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands á næstu dögum. Markmið rannsóknarinnar er að beina sjónum að því hvers vegna munur er á milli kynja hvað varðar töku örorkulífeyris hjá fólki á aldrinum 50 til 66 ára. Að auki verður könnunin send konum sem skráðar eru í samanburðarhópi í netpanel Félagsvísindastofnunar.

Flestir með örorkulífeyri á Íslandi eru konur yfir fimmtugt og er til dæmis ein af hverjum fjórum konum á aldrinum 63 til 66 ára á Íslandi á örorkulífeyri. Ekki er vitað hvað veldur þessu háa hlutfalli og eru konur að jafnaði um 20 til 30% fleiri en karlar með örorkumat á aldrinum 50 til 66 ára. Rannsaka á stöðu þessara kvenna og hvað hugsanlega liggi að baki því að svo stór hluti þeirra á þessum aldri dettur út af vinnumarkaði.

Niðurstöður rannsóknar verða birtar í ítarlegri skýrslu þar sem greint verður annars vegar hvort munur sé á reynslu og bakgrunni karla og kvenna með örorkulífeyri og hins vegar hvort munur sé á reynslu og bakgrunni kvenna með örorkumat og þeirra sem tilheyra netpanel Félagsvísindastofnunar.

Gert er ráð fyrir að niðurstöður rannsóknarinnar liggi fyrir á vormánuðum og verða þær kynntar formlega.