Ellilífeyrir - hækkun á frítekjumörkum og aldursviðbót á ellilífeyri til þeirra sem áður fengu örorkulífeyri
22. desember 2025
Alþingi hefur samþykkt frumvarp sem felur meðal annars í sér hækkun á almennu frítekjumarki ellilífeyris og aldursviðbót á ellilífeyri til þeirra sem áður fengu greiddan örorkulífeyri.

Almennt frítekjumark ellilífeyris
Frá 1. janúar næstkomandi mun almennt frítekjumark ellilífeyris og félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða hækka um tæplega 20% að teknu tilliti til hækkana samkvæmt fjárlögum.
Almennt frítekjumark verður 523.896 krónur á ári á árinu 2026 eða 43.658 krónur á mánuði í stað 438.000 króna á ári á árinu 2025 eða 36.500 krónur á mánuði.
Aldursviðbót – kemur til framkvæmda 1. mars 2026
Einstaklingur með ellilífeyri sem áður fékk greiddan örorkulífeyri getur nú átt rétt á aldursviðbót. Aldursviðbót er tekjutengd og samanlögð fjárhæð ellilífeyris og aldursviðbótar lækkar um 45% af tekjum einstaklings umfram frítekjumörk ellilífeyris. Sjá má nánari upplýsingar um aldursviðbót hér.
Aldursviðbót á ellilífeyri kemur til framkvæmda þann 1. mars 2026 en tekur gildi frá og með 1. janúar 2026. TR mun nú hefjast handa við að útbúa nýjan greiðsluflokk sem verður greiddur út frá og með 1. mars 2026. Fyrsta greiðsla mun fela í sér greiðslu á afturvirkum réttindum frá 1. janúar 2026.
Sjá einnig frétt á vef stjórnarráðsins um samþykkt frumvarpsins.