Svæðisskipulag er skipulagsáætlun tveggja eða fleiri sveitarfélaga um sameiginleg hagsmunamál og svæðisbundnar áherslur, svo sem byggðaþróun, samgöngur eða vatnsvernd.
Svæðisskipulag skal taka til svæðis sem myndar heild í landfræðilegu, hagrænu og félagslegu tilliti og getur þannig tekið til landshluta eða annarra stærri heilda.
Skylda er að vinna svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, en annarsstaðar á landinu er svæðisskipulagsgerð valfrjáls.
Í kortavefsjá má nálgast upplýsingar um stöðu svæðisskipulags á öllu landinu.
Á Skipulagsgátt má finna upplýsingar um skipulag í vinnslu.
Gerð svæðisskipulags
Þar sem vinna á svæðisskipulag koma hlutaðeigandi sveitarstjórnir á fót sameiginlegri svæðisskipulagsnefnd. Hún annast vinnslu, kynningu og afgreiðslu svæðisskipulags undir yfirstjórn sveitarstjórnanna.
Svæðisskipulagsnefnd skal jafnframt starfrækt þar sem svæðisskipulag er í gildi. Hún sér um framfylgd og breytingar á svæðisskipulaginu og metur, í upphafi kjörtímabils, hvort tilefni er til að endurskoða svæðisskipulag.
Svæðisskipulag er háð samþykki allra hlutaðeigandi sveitarstjórna og staðfestingu Skipulagsstofnunar.
Kostnaður við gerð svæðisskipulags greiðist til helminga af hlutaðeigandi sveitarfélögum og Skipulagssjóði. Umsókn um kostnaðarframlag úr Skipulagssjóði má nálgast á þjónustusíðum Skipulagsstofnunar.
Ferli svæðisskipulagsgerðar
Í upphafi vinnu að gerð svæðisskipulags skipa sveitarstjórnir hlutaðeigandi sveitarfélaga svæðisskipulagsnefnd. Hún tekur saman lýsingu fyrir svæðisskipulagsverkefnið þar sem gerð er grein fyrir tildrögum og áherslum skipulagsvinnunnar og hvernig fyrirhugað er að standa að skipulagsgerðinni. Lýsing er samþykkt af hlutaðeigandi sveitarstjórnum.
Lýsingin er kynnt opinberlega og almenningi gefinn kostur að koma ábendingum á framfæri við svæðisskipulagsnefnd í gegnum Skipulagsgátt. Samhliða er leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila.
Svæðisskipulagsnefnd vinnur tillögu að svæðisskipulagi í samræmi við lýsingu skipulagsverkefnisins og með hliðsjón af þeim ábendingum sem borist hafa frá almenningi og umsagnaraðilum á fyrri stigum.
Við gerð svæðisskipulags eru umhverfisáhrif metin og niðurstöður umhverfismatsins nýttar við endanlega mótun skipulagstillögunnar.Svæðisskipulagstillaga skal unnin í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila.
Þegar endanleg tillaga að svæðisskipulagi liggur fyrir af hálfu svæðisskipulagsnefndar og hún hefur verið samþykkt af viðkomandi sveitarfélögum er hún send Skipulagsstofnun til umsagnar.
Tillaga að svæðisskipulagi er síðan formlega auglýst og almenningi gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri í gegnum Skipulagsgátt.
Svæðisskipulagsnefnd bregst við þeim athugasemdum sem komið hafa fram við kynningu á tillögu að svæðisskipulagi og gengur frá endanlegu svæðisskipulagi. Svæðisskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af hlutaðeigandi sveitarstjórnum og staðfest af Skipulagsstofnun.
Endanleg gögn og afgreiðslur eru birt á Skipulagsgátt.