Umsóknarskylda vegna greiðsluþátttöku í tannplöntum
18. september 2024
Þann 1. september síðastliðinn öðlaðist gildi ný aðgerðarskrá og gjaldskrá vegna tannlækninga sem settar eru á grundvelli samnings Sjúkratrygginga og Tannlæknafélags Íslands.
Ýmsar breytingar urðu á umsóknarskyldu vegna tiltekinna verka tannlækna sem miða aðallega að því að einfalda vinnu þeirra.
Vakin er athygli á því að greiðsluþátttaka öryrkja og aldraðra vegna ísetningar tannplanta í tannlausan góm verður framvegis háð fyrirfram samþykktri umsókn til Sjúkratrygginga, eins og verið hefur í tilteknum kostnaðarsömum meðferðum. Tannlæknar sem hyggjast veita slíka meðferð með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga munu því framvegis þurfa að sækja um meðferðina til Sjúkratrygginga. Mun þetta eiga við um tannlækna á Íslandi sem og tannlækna erlendis, sjá nánar hér að neðan.
Aðrar upplýsingar um greiðsluþátttöku vegna tannlækninga má nálgast á vef Sjúkratrygginga.
Um greiðsluþátttöku í tannlækningum erlendis
Sjúkratryggingar endurgreiða sjúkratryggðum einstaklingum almenna tannlæknaþjónustu sem sótt er á EES-svæðinu. Greiðsluþátttaka byggir á svokallaðri landamæratilskipun (cross border health care directive 2011/24/EU). Tilgangur tilskipunarinnar er að veita EES borgurum rétt til að sækja heilbrigðisþjónustu í hvaða landi EES-svæðisins sem er og fá sömu endurgreiðslu og ef þjónustan hefði verið veitt í heimalandi.
Í vissum tilfellum þarf að liggja fyrir samþykkt umsókn áður en meðferð er veitt. Sömu kröfur eru gerðar til fyrirfram samþykktrar umsóknar vegna tannlækninga erlendis og á Íslandi. Það er, í þeim tilfellum þar sem krafist er fyrirfram samþykkis vegna meðferðar hér á landi (t.d. vegna ísetningar tannplanta í tannlausan góm) þá þarf jafnframt að liggja fyrir samþykkt umsókn um meðferðina erlendis áður en hún er veitt. Annars hafa Sjúkratryggingar ekki heimild til að endurgreiða kostnaðinn.
Umsókn skal send Sjúkratryggingum með fullnægjandi fylgigögnum, þ.e. vottorði tannlæknis um nauðsyn meðferðar ásamt nauðsynlegri myndgreiningu ef við á.
Vegna þeirra sem hyggjast sækja þjónustu erlendis í september eða október 2024 er þó nægjanlegt að senda inn umsókn fyrir lok októbermánaðar og verður þá veitt tímabundin undanþága frá kröfu um fyrirfram samþykkta umsókn (enda fylgi með allar nauðsynlegar upplýsingar). Eftir þann tíma verður fyrirfram samþykkt umsókn skilyrði fyrir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga.
Umsókn um samþykki fyrir meðferð vegna tannlæknaverks erlendis má nálgast undir Eyðublöð og vottorð - Réttindi milli landa, Umsókn um samþykki fyrir meðferð vegna tannlæknaverks erlendis
Ofangreind aðgerðarskrá og gjaldskrá öðlaðist gildi 1. september 2024