Fara beint í efnið

Þjálfunarstöðvar fyrir menntun skoðunarmanna

9. júlí 2024

Á næsta ári (2025) tekur gildi sú krafa að skoðunarmenn sem hefja störf hjá skoðunarstofum ökutækja þurfa að ljúka þjálfun hjá viðurkenndum þjálfunarstöðvum og öðlast viðurkenningu Samgöngustofu til þess að fá heimild til þess að framkvæma faggiltar skoðanir. Einnig verður öllum starfandi skoðunarmönnum gert skylt að ljúka endurmenntunarnámskeiði hjá viðurkenndri þjálfunarstöð fyrir lok næsta árs (31. desember 2025) til að mega starfa áfram.

Samgöngustofa Umferð á Kringlumýrarbraut

Þessar kröfur eru settar fram í reglugerð um skoðun ökutækja og í námskrá fyrir grunnþjálfun og endurmenntun skoðunarmanna sem finna má á heimasíðu Samgöngustofu, Þjálfun og viðurkenning skoðunarmanna | Ísland.is (island.is)

Þjálfunarstöðvar sem munu bjóða upp á námskeið fyrir skoðunarmenn þurfa að vera viðurkenndar af Samgöngustofu. Þær þurfa að uppfylla kröfur um aðföng og ábyrgð eins og lýst er í námskránni og hafa kennsluskrá í samræmi við þá viðurkenningu sem þær óska eftir að hafa. Faggiltar skoðunarstofur ökutækja geta sótt um að starfrækja viðurkennda þjálfunarstöð en einnig geta sjálfstæðir fræðsluaðilar og skólar líka gert það.

Til að hægt verði að viðurkenna nýja skoðunarmenn strax á næsta ári er mikilvægt að ein eða fleiri þjálfunarstöð hljóti viðurkenningu fyrir áramót. Samgöngustofa hvetur því faggiltar skoðunarstofur og fræðsluaðila sem starfa á sviði bíltækni og véltækni að skoða möguleikana á því að stofna viðurkennda þjálfunarstöð.

Nánari upplýsingar um starfsemi þjálfunarstöðva og kröfurnar í námskrá fyrir grunnþjálfun og endurmenntun skoðunarmanna veitir tæknideild umferðarsviðs, vinsamlega sendið tölvupóst á netfangið okutaeki@samgongustofa.is.