Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Samgöngustofa Forsíða
Samgöngustofa Forsíða

Samgöngustofa

Þessi frétt er meira en árs gömul

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa haldinn 17. nóvember

11. nóvember 2024

Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa verður haldinn sunnudaginn 17. nóvember. Í ár verður kastljósi dagsins beint að hættunni sem getur skapast á að sofna eða dotta undir stýri vegna þreytu ökumanna. Rannsóknir Rannsóknarnefndar samgönguslysa hafa sýnt að svefn og þreyta eru meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni.

Minningarathafnir verða haldnar hringinn í kringum landið af þessu tilefni og þar verður fórnarlamba umferðaslysa minnst með einnar mínútu þögn. Löng hefð er fyrir því að minningarathöfn er haldin við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi kl. 14. Halla Tómasdóttir forseti Íslands og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra munu flytja ávörp á minningarathöfninni í Fossvogi. Gert er ráð fyrir að sögð verði reynslusaga sem tengist umferðarslysi af völdum svefns og þreytu.

Einkennislag dagsins er lag KK, When I Think of Angels, í flutningi hans og Ellenar sem samið var til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. Lagið verður flutt samtímis á öllum útvarpsstöðum kl. 14 á minningardaginn.

Alþjóðlegur minningardagur

Tilgangurinn með deginum er að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni. Þá er rík hefð fyrir því á minningardeginum að færa starfsstéttum, sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður, þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf.

Minningardagurinn er alþjóðlegur undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum.

Að baki minningardeginum standa Samgöngustofa, innviðaráðuneytið, Sjálfsbjörg, Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan og Vegagerðin.

Nánari upplýsingar má finna á vefnum minningardagur.is