Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa
Dagurinn er til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni en ekki hvað síst að þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á svefn og þreytu undir stýri.
Minningardagurinn 2024
Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa.
Í ár verður m.a. haldin minningarathöfn kl. 14:00 við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi en auk þess munu einingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar og fleiri viðbragðsaðilar standa fyrir táknrænum athöfnum víða um land Öll eru velkomin.
Minningardagurinn í ár er sunnudaginn 17. nóvember.
Auk þess að vera minningardagur hefur hér á landi skapst sú venja að tileinka daginn umfjöllun og forvörnum tiltekins áhættuþáttar sem valdið hefur banaslysum. Nú í ár er það sú hætta sem stafar af svefni og þreytu ökumanna. Mörg alvarleg slys og banaslys má rekja til þess.
Að baki minningardeginum standa auk Samgöngustofu, innviðaráðuneytið, Sjálfsbjörg, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan og Vegagerðin.
Dagskrá viðburðar við þyrlupall Landspítalans Fossvogi 17. nóv.
13:45 Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir
13:45 til 14:00 Þátttakendur safnast saman við þyrlupallinn og stilla upp farartækjum og fólki.
Myndataka – viðbragðsaðilar ásamt forseta framan við ökutæki og þyrlu Landhelgisgæslunnar.
14:00 Minningarathöfn sett – Ingilín Kristmannsdóttir ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins.
14:05 Ávarp forseta Íslands – Halla Tómasdóttir.
14:10 Forseti Íslands stýrir einnar mínútu þögn.
14:11 Ávarp innviðaráðherra – Sigurður Ingi Jóhannsson.
14:16 Ræðumenn dagsins fjalla um sína reynslu – Lína Þóra Friðbertsdóttir og Jón Sigmundsson.
14:25 Formlegri athöfn slitið – Ingilín Kristmannsdóttir ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins.
14:25 Boðið upp á kaffi, kakó og með því.
14:25 Forseti Íslands, ásamt forstjóra Samgöngustofu og Vegagerðarinnar, færir starfsfólki bráðamóttökunnar veitingar – þakklætisvott.
Auk þess verður streymt frá einhverjum viðburðum á Facebooksíðum björgunarsveita og slysavarnadeilda.
Dagskrá viðburða utan höfuðborgarsvæðis
Hér má sjá lista yfir þá viðburði sem staðfest er að haldnir verða sunnudaginn 17. nóvember. Athugið að athöfn sem haldin verður á Hólmavík verður haldin laugardaginn 16. nóvember.
Útvarpsstöðvar landsins sameinast í spilun á When I think of angels.
Lagið When I think of Angels er orðið einkennislag minningardagsins hér á landi. Það er samið af KK (Kristjáni Kristjánssyni) og sungið af systur hans Ellen. Kristján samdi lagið til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992.
Allar útvarpsstöðvar landsins með beinar útsendingar munu sameinast í spilun lagsins um kl. 14:00 á minningardeginum.
Hvers vegna minningardagur?
Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Það eru u.þ.b. 1.3 milljónir á einu ári.
Frá því að fyrsta banaslysið var skráð á Íslandi 25. ágúst 1915, hafa þann 11. nóvember 2024, samtals 1624 einstaklingar látist í umferðinni. Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.
Svefn og þreyta getur skapað mikla hættu
Á hverju ári verða fjölmörg alvarleg slys, þar með talin banaslys, sem rakin eru beint til þess að ökumenn eru of þreyttir eða hreinlega sofna undir stýri. Okkur hættir til að ofmeta eigið úthald. Örsvefninn getur þá læðst að okkur án fyrirvara - þegar við þreytumst. Við akstur er þetta stórhættulegt ástand og ætlunin er að beina sjónum sérstaklega að því á minningaradeginum núna í ár.
Til að fyrirbyggja syfju og þreytu ökumanns er gott að við höfum eftirfarandi í huga:
Gætum þess að vera vel úthvíld áður en lagt er af stað.
Stoppum reglulega, teygjum úr okkur, hvílum okkur aðeins.
Gætum þess að nærast vel og drekka nægan vökva.
Skiptumst á að keyra.
Pössum að ekki sé of heitt í bílnum.
Að farþegarnir í bílnum skilji ekki ökumanninn eftir einan vakandi.
Ef allt þetta þrýtur þ.e. ef syfjan og þreytan nær yfirhöndinni skal:
Hætta akstri.
Finna sér öruggan stað til að leggja sjálfan sig og bílnum - þótt ekki væri í nema 15 mínútur.
Við vonum að fólk sýni viðeigandi hluttekningu á þessum degi og tryggi sem best öryggi og ábyrgð sína í umferðinni.
Nánari upplýsingar um erlenda viðburði og efni má finna hér:
Vefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO