Fara beint í efnið

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Dagurinn er til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni en ekki hvað síst að þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á fyrstu viðbrögð á slysstað og neyðarhjálp.

Minningardagur umferðarslysa

Minningardagurinn 2023

Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Í ár verður haldin minningarathöfn við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi sunnudaginn 19. nóvember. Öll eru velkomin. 

Einingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar og fleiri viðbragðsaðilar munu einnig standa fyrir táknrænum athöfnum víða um land, sunnudaginn 19. nóvember og verður streymt frá einhverjum þeirra á Facebooksíðum björgunarsveita og slysavarnadeilda.

Að baki minningardeginum standa auk Samgöngustofu, innviðaráðuneytið, Sjálfsbjörg, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan og Vegagerðin.

Dagskrá minningarathafnar í Reykjavík

Minningarathöfnin í Reykjavík verður haldin við þyrlupallinnn við bráðamóttökuna í Fossvogi:

14:00 Minningarathöfnin sett – Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar
14:05 Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson flytur erindi
14:10 Einnar mínútu þögn
14:11 Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra flytur erindi
14:16 Inda Hrönn Björnsdóttir fjallar um sína reynslu
14:25 Formlegri athöfn slitið
14:25 Boðið upp á kaffi, kakó og með því

Minningarathafnir um land allt

Dalvík
Slysavarnadeildin Dalvík og Sr. Oddur Bjarni standa fyrir messu í Dalvíkurkirkju klukkan 20:00 þann 19. nóvember til að heiðra minningu fórnalamba umferðarslysa. Að lokinni messu mun slysavarnadeildin Dalvík bjóða uppá vöfflur.

Hnífsdalur
Slysavarnadeildin Iðunn á Ísafirði og Slysavarnadeildin í Hnífsdal stendur fyrir minningarathöfn á Hnífsdalsvegi klukkan 13:00 þann 19. nóvember. Viðbragðsaðilar, björgunarsveitir frá Hnífsdal, Ísafirði og Bolungarvík og lögregla og slökkvilið, koma saman með sinn bílaflota með blikkandi ljósum.

Að því loknu eða klukkan 14:00 verður samkoma fyrir utan Guðmundarbíð á Ísafirði. Nokkur erindi verða flutt ogkveikt verður á kertum. Boðið verður uppá kaffi og vöfflur í sal Guðmundarbúðar að athöfn lokinni. Öll velkomin.

Höfn í Hornafirði
Viðbragðsaðilar í sveitarfélaginu munu koma saman til að minnast þeirra sem hafa látist í umferðarslysum undanfarin ár. Haldin verður helgistund í Hafnarkirkju klukkan 14:00 þann 19. nóvember. Öllum er boðið að koma í stundina og eiga með okkur samfélag. Boðið verður upp á kaffi í safnaðarheimilinu í lok stundarinnar.

Patreksfjörður
Viðbragðsaðilar á patreksfirði munu standa fyrir minningarstund við Patreksfjarðarkirkju klukkan 14:00 þann 19 nóvember. Boðið verður upp á kaffi og veitingar í safnaðarheimilinu á eftir.

Reykjanesbær
Slysavarnadeildin Dagbjörg og Björgunarsveit Suðurnes standa fyrir minningarathöfn í Ytri Njarðvíkurkirkju klukkan 14:00 þann 19. nóvember. Prestur ávarpar gesti, kveikt verður á kertum og fulltrúar frá sjúkrahúsinu, lögreglunni og slökkviliðinu verða á staðnum. Léttar veitingar verða á boðstólum.

Sauðárkrókur
Björgunarsveitin Skagfirðingasveit ætlar að fara ásamt lögreglu og slökkviliði uppá Nafir á Sauðárkróki og kveikja á rauðum blysum til minningar um fórnarlömb umferðaslysa klukkan 18.00 þann 19. nóvember.

Siglufjörður
Slysavarnadeildin Vörn stendur fyrir minningarathöfn við kirkjutröppurnar fyrir neðan Siglufjarðarkirkju klukkan 17:00 þann 19. nóvember. Farið verður með ræðu og söngkona kemur og tekur nokkur falleg lög. Boðið verður uppá heitt kakó, kaffi, piparkökur og konfekt.

Suðurland
Minningarathöfn verður haldin við Þingborg klukkan 18.00 þann 19. nóvember.

Vestmannaeyjar
Slysavarnadeildin Eykyndill mun kveikja á kertum við kirkjugarðshliðið á Kirkjuveginum í Vestmannaeyjum klukkan 18:00 þann 19. nóvember. Guðmundur prestur verður með blessunarorð.

Útvarpsstöðvar landsins sameinast í spilun á When I think of angels.

Lagið When I think of Angels er orðið einkennislag minningardagsins hér á landi. Það er samið af KK (Kristjáni Kristjánssyni) og sungið af systur hans Ellen. Kristján samdi lagið til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. 

Allar útvarpsstöðvar landsins með beinar útsendingar munu sameinast í spilun lagsins um kl. 14:00 á minningardeginum.

Hvers vegna minningardagur?

Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Það eru u.þ.b. 1.3 milljónir á einu ári.

Frá því að fyrsta banaslysið var skráð á Íslandi 25. ágúst 1915, hafa þann 1. nóvember 2023, samtals 1608 einstaklingur látist í umferðinni. Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.

Það gleymist oft að þakka og hugsa til þeirra sem koma að slysum og þurfa á ögurstundu að hlúa að og bjarga fólki við oft mjög erfiðar aðstæður. Yfirleitt eru það vegfarendur sem fyrstir koma að slysi og standa frammi fyrir því vandasama verkefni að bjarga mannslífum. Á þessum degi er einmitt ætlunin að vekja athygli á þessu fólki. Fjallað verður um mikilvægi þekkingar almennings á hjálp í viðlögum og réttrar forgangsraðar þegar komið er að slysum;

  1. Tryggja öryggi

  2. Meta aðstæður

  3. Tilkynna 1-1-2

  4. Hlúa að slösuðum

Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni. Það er því til mikils að vinna að koma í veg fyrir slysin og megi þessi dagur efla vitund okkar fyrir því og ábyrgð.

Vefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO