Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Samgöngustofa Forsíða
Samgöngustofa Forsíða

Samgöngustofa

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Dagurinn er til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni en ekki hvað síst að þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á notkun öryggisbelta.

Minningardagurinn 2025

Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa.

Í ár verður m.a. haldin minningarathöfn kl. 14:00 við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi en auk þess munu einingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar og fleiri viðbragðsaðilar standa fyrir táknrænum athöfnum víða um land. Öll eru velkomin.

Minningardagurinn í ár er sunnudaginn 16. nóvember.

Auk þess að vera minningardagur hefur hér á landi skapst sú venja að tileinka daginn umfjöllun og forvörnum tiltekins áhættuþáttar sem valdið hefur banaslysum. Nú í ár er það notkun eins mikilvægasta öryggisbúnaðar bifreiða - öryggisbelta. Öryggisbelti minnka líkur á dauðsfalli í fólksbílum um allt að 45%. Koma hefði mátt í veg fyrir fjölda banaslysa og alvarlegra slysa ef öryggisbelti hefðu verið notuð.

Að baki minningardeginum standa Samgöngustofa, innviðaráðuneytið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan, Vegagerðin og ÖBÍ réttindasamtök.

Dagskrá í Reykjavík

13:45 Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir

13:45 til 14:00 Þátttakendur safnast saman við þyrlupallinn og stilla upp farartækjum og fólki.

Myndataka – viðbragðsaðilar ásamt forseta framan við ökutæki og þyrlu Landhelgisgæslunnar.

14:00 Minningarathöfn sett – Ingilín Kristmannsdóttir ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins.

14:05 Ávarp forseta Íslands – Halla Tómasdóttir.

14:10 Forseti Íslands stýrir einnar mínútu þögn.

14:11 Ávarp innviðaráðherra – Eyjólfur Ármannsson.

14:16 Hilmar Sigurjónsson lögreglumaður fjallar um sína reynslu.

14:22 Hinsegin kórinn flytur lagið I Think of Angels.

14:26 Formlegri athöfn slitið – Ingilín Kristmannsdóttir ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins.

14:28 Boðið upp á kaffi, kakó og með því.

14:30 Forseti Íslands, ásamt forstjóra Samgöngustofu og Vegagerðarinnar, færir starfsfólki bráðamóttökunnar veitingar – þakklætisvott.

Dagskrá utan Reykjavíkur

Útvarpsstöðvar landsins sameinast í spilun á I Think of Angels.

Lagið I Think of Angels er orðið einkennislag minningardagsins hér á landi. Það er samið af KK (Kristjáni Kristjánssyni) og sungið af systur hans Ellen. Kristján samdi lagið til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. 

Stefnt er að því að allar útvarpsstöðvar landsins sem eru með beinar útsendingar sameinist í spilun lagsins kl. 14:00 á minningardeginum.

Hvers vegna minningardagur?

Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Það eru u.þ.b. 1.3 milljónir á einu ári.

Frá því að fyrsta banaslysið var skráð á Íslandi 25. ágúst 1915, hafa samtals 1632 einstaklingar látist í umferðinni (13. nóvember 2025). Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.

Við vonum að fólk sýni viðeigandi hluttekningu á þessum degi og tryggi sem best öryggi og ábyrgð sína í umferðinni. 

Nánari upplýsingar um erlenda viðburði og efni má finna hér:
Vefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO