Viðurkenning fyrir sjö stafræn skref
1. október 2025
Við erum afar stolt af því að hafa verið í hópi sjö stofnana sem fengu nýverið viðurkenningu frá Stafrænu Íslandi fyrir að stíga mikilvæg stafræn skref en þau miða meðal annars að því að efla þjónustu með því að nýta opin og sameiginleg tól sem þróuð hafa verið af Stafrænu Íslandi.

Stafrænu skrefin eru níu talsins sem stendur og höfum við lokið sjö þeirra. Þau eru:
Vefsíða á Ísland.is
Innskráning fyrir alla
Umsóknarkerfi Ísland.is
Mínar síður Ísland.is
Straumurinn
Stafrænt pósthólf
Þjónustukerfi
Viðurkenningarnar voru veittar á árlegri ráðstefnu Stafræns Íslands, sem ber yfirskriftina Tengjum ríkið. Forstjórinn okkar, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, tók við viðurkenningunni fyrir okkar hönd.
Þróun nýs innritunarferlis í framhaldsskóla, í samstarfi við Stafrænt Ísland og Apró, er eitt af þeim stafrænu skrefum sem við höfum nýverið tekið en síðastliðið vor fór innritun í fyrsta skipti fram í gegnum Ísland.is. Það er gaman að segja frá því að innritunin gekk afar vel fyrir sig og engir hnökrar sem komu upp.
Í meðfylgjandi myndbandi má heyra Guðrúnu Helgu Ástríðardóttur, sérfræðing í skólaþjónustu framhaldsskóla hjá MMS, segja frá þróuninni og árangursríku samstarfi við Stafrænt Ísland.