Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Úrslit Ljóðaflóðs 2025

28. janúar 2026

Sorg, gleði, fjölbreytileiki, tungumál og náttúra voru á meðal yrkisefna í ljóðasamkeppninni Ljóðaflóði sem Miðstöð menntunar stóð fyrir í tilefni af degi íslenskrar tungu. Ljóðformið var einnig fjölbreytt en það bárust bæði bundin og óbundin ljóð, hækur og prósaljóð.

Grunnskólanemendur frá 25 skólum sendu samtals 301 ljóð í keppnina, 106 ljóð frá yngsta stigi, 86 frá miðstigi og 109 ljóð frá unglingastigi.

Dómnefnd valdi eitt verðlaunaljóð á hverju stigi og fengu vinningshafar bókaverðlaun og viðurkenningarskjal. Auk þess gefst nemendum tækifæri til að flytja verðlaunaljóð sín á KrakkaRúv.

Vinningshafarnir eru:

Þórdís Harpa Óskarsdóttir, nemandi í 2. bekk Foldaskóla í Reykjavík, fyrir ljóðið Ævintýri. Í umsögn dómnefndar segir: Frumlegt og skemmtilegt ljóð með ævintýrablæ. Síðasta ljóðlínan skapar hugrenningatengsl við fyrri ljóðlínur og rammar inn ljóðið á óvæntan hátt. Titillinn hæfir ljóðinu mjög vel.

Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á yngsta stigi má sjá hér.

Alex Veigar Ásgeirsson, nemandi í 6. bekk Hofstaðaskóla í Garðabæ, fyrir ljóðið Handbolti. Í umsögn dómnefndar segir: Í ljóðinu er handbolta líkt við tungumál sem þarf að halda á lofti. Gott samspil er eins og samtal þar sem orð berast á milli fólks og ekki verra að enda það með góðu skoti sem hittir í mark, rétt eins og hnyttin ummæli. Samlíkingin er skemmtileg og notkun á rími sömuleiðis.

Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á miðstigi má sjá hér.

Fanndís Lilja Lárusdóttir, nemandi í 10. bekk Hvolsskóla á Hvolsvelli, fyrir ljóðið Mamma. Í umsögn dómnefndar segir: Hjartnæmt og einlægt ljóð sem tjáir ást og kærleika en jafnframt söknuð og sorg. Bygging ljóðsins er vel heppnuð og lokaljóðlínur skapa áhrifarík hughrif.

Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á unglingastigi má sjá hér.


Verðlaunaljóð í ljóðasamkeppni grunnskólanema, Ljóðaflóði 2025

Ævintýri

Stelpan fór að leita

að svönum í Á

en festist í Ö.

Þá sá hún svanina.

Þórdís Harpa Óskarsdóttir, verðlaunahafi á yngsta stigi


Handbolti

Ekki bara íþrótt

þar sem boltinn fer í mark.

Ekki bara hreyfing

með bolta eða hark.

Handbolti er tungumál

sem við tölum saman.

Sendum bolta á milli

og höfum af því gaman.

Boltinn eins og orð

sem berast milli manna.

Við þurfum bara að halda þeim á floti

og enda svo með góðu skoti.

Alex Veigar Ásgeirsson, verðlaunahafi á miðstigi


Mamma

Hún hnýtti mér blómakrans

og setti hann á höfuðið mitt

eins og kórónu.

Stjörnur dansa í augum hennar

og ástin skín af henni

eins og sólargeisli.

Ég myndi gefa henni himininn

og skýin ef ég gæti.

Ég sit í fangi hennar

og segi henni allt sem í hjarta mínu býr.

Nú ligg ég við gröf hennar í nýslegnu grasi

að hnýta blómakrans

sem hún mun aldrei sjá.

Fanndís Lilja Lárusdóttir, verðlaunahafi á unglingastigi


Við óskum vinningshöfum hjartanlega til hamingju með frábæran árangur og þökkum nemendum og kennurum fyrir þátttökuna. Við hlökkum til næsta Ljóðaflóðs og vonum að enn fleiri muni taka þátt næst en keppnin er haldin árlega í tengslum við dag íslenskrar tungu 16. nóvember.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Hafðu samband

Símanúmer: 514 7500
Netfang: postur@midstodmenntunar.is
Póstlistaskráning

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga:
09:00 - 15:00
Föstudaga: 09:00 - 12:00

Heim­il­is­fang

Víkurhvarf 3
203 Kópavogur

Kennitala: 660124-1280