Uppskeruhátíð fyrir styrkþega skólaþróunarverkefna menntastefnu til ársins 2030
8. september 2025
Mennta og barnamálaráðuneytið og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu efndu nýverið til uppskeruhátíðar fyrir styrkþega skólaþróunarverkefna menntastefnu til ársins 2030. Tilgangurinn var að fagna afrakstrinum, efla tengslin milli styrkþega og tilkynna um næstu skref.

Við það tækifæri var frumsýnd vefsíða sem Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hefur umsjón með þar sem safnað verður saman afurðum allra verkefnanna til að stuðla að útbreiðslu þeirra þannig að þau nýtist sem best öðrum skólum og stofnunum. Þá voru jafnframt frumsýnd 5 myndbönd frá leikskóla, framhaldsskóla, tveimur grunnskólum og úr frístundastarfi, sem hlutu styrki, og gáfu þau góða mynd af því gróskumikla starfi sem unnið hefur verið sl. vetur.
Vefsíða um skólaþróunarverkefnin
Mennta- og barnamálaráðuneytið úthlutaði í ársbyrjun 2024 fjörutíu styrkjum til nýsköpunar- og skólaþróunarverkefna á vettvangi leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfs í tengslum við menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Í menntastefnunni er lögð rík áhersla á skólaþróun og nýsköpun og var þessum styrkjum ætlað að skapa nýja þekkingu og sjá til þess að þeirri þekkingu verði deilt vítt og breitt innan skólasamfélagsins og frístundastarfs. Með því móti gefst kostur á að nýta afraksturinn til frekari lærdóms og ávinnings, til valdeflingar fagfólks, hvatningar til lærdómshugsunar en síðast en ekki síst til ávinnings fyrir nemendur.
Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og til að vel takist þurfa allir að leggja sitt af mörkum og stilla saman strengi til að sem bestur árangur náist og þar gegnir skóla- og frístundastarf veigamiklu hlutverki. Þar er í raun eini vettvangurinn til að ná til svo gott sem allra barna og mikilvægt að nýta það tækifæri eins vel og frekast er unnt. Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að ég settist í stól mennta- og barnamálaráðherra hefur verið ánægjulegt að fá að kynnast fjölbreyttu og metnaðarfullu þróunarstarfi í skóla- og frístundastarfi og ég tel að við getum með samstilltum hætti og víðtæku samstarfi náð að styrkja stoðir menntakerfisins enn frekar,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra.

Í ræðu sinni kynnti ráðherra að með annarri aðgerðaáætlun menntastefnu stjórnvalda fylgja nýir styrkir til frekari skólaþróunar sem auglýstir verða nú í haust, til úthlutunar snemma á næsta ári.