Fara beint í efnið
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Tímamót í íslensku skólastarfi

2. apríl 2024

Í dag tekur til starfa Miðstöð menntunar og skólaþjónustu en hún mun gegna lykilhlutverki í eflingu á menntakerfinu og innleiðingu á menntastefnu stjórnvalda.

Logo_án texta

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu tekur til starfa

Í dag tekur til starfa Miðstöð menntunar og skólaþjónustu en hún mun gegna lykilhlutverki í eflingu á menntakerfinu og innleiðingu á menntastefnu stjórnvalda. Þjónusta og stuðningur við skólasamfélagið í heild sinni eru meginviðfangsefni hinnar nýju miðstöðvar sem verður þekkingarmiðstöð og faglegur leiðtogi varðandi gæði menntunar og farsæld barna í skólum landsins. Þannig mun miðstöðin meðal annars styðja, efla og samhæfa menntun og skólaþjónustu um allt land, sjá nemendum fyrir vönduðu námsefni, þróa aðferðir til að meta stöðu og framvindu nemenda auk þess að byggja upp og viðhalda aðferðum og úrræðum fyrir skóla til að styðja við skólastarf.

Bakland skólastarfs á Íslandi

„Innleiðing menntastefnu er risastórt verkefni og það er alveg ljóst skólasamfélagið þarf að hafa öflugt bakland. Þetta er verkefni allra sem að menntakerfinu koma,” segirÞórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. „Okkar hlutverk í öllu þessu er að styðja við og þjónusta skólasamfélagið á allan þann hátt sem mögulegt er, til dæmis hvað varðar þekkingu, ráðgjöf, námsgögn og mat á stöðu, færni og framvindu nemenda. Við viljum vera bakland skólastarfs á Íslandi, stólpinn sem hægt verður að halla sér að,“ segir Þórdís Jóna og bætir því við að ábyrgðin sé mikil: „Það er mikill vilji hjá skólasamfélaginu að mæta hverju barni. Hvert barn er einstakt og öll eiga þau rétt á nálgun við sitt hæfi sem er það sem inngildandi nálgun í skólakerfinu snýst um. Til að kennarar og starfsfólk skóla geti fylgt þessu eftir þá þarf meiri stuðning, bæði til þess að matstæki séu viðeigandi og úrræði til að fylgja eftir niðurstöðum úr mati séu til staðar. Allt skólastarf hverfist um barnið og við trúum því að að með auknum stuðningi, ráðgjöf og fjölbreyttari verkfærum þá getum við stutt betur við starfsfólk skóla við það mikilvæga verkefni að skapa umhverfi þar sem öll börn fá tækifæri til þess að njóta sín og blómstra.“

Bjartsýn á framtíðina

Á sama tíma og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hefur starfsemi lokast dyr Menntamálastofnunar sem lögð hefur verið niður. Mörg verkefna hennar flytjast yfir til Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, eins og námsgagnaútgáfa og vinna við matsferil. Þá verður í fyrsta sinn á Íslandi til stofnun sem ætlað er að styðja við skólaþjónustu. Áhersla verður lögð á miðlun gagnreyndra aðferða í skólastarfi í anda inngildandi menntunar þar sem virðing er borin fyrir fjölbreyttum þörfum og styrkleikum nemenda.

Þessi verkefni eru forsenda þess að hægt sé að mæta hverju barni þannig að það fái að njóta sín á eigin forsendum. Það á við hvort heldur börn þurfi meira krefjandi námsefni til að takast á við eða annarskonar stuðning. Önnur verkefni, eins og til dæmis alþjóðleg samstarfsverkefni flytjast í mennta- og barnamálaráðuneytið. Þórdís Jóna segir að nýja miðstöðin opni dyr sínar með bjartsýnina að vopni: „Við erum mjög spennt fyrir komandi verkefnum og hlökkum til að takast á við þau mikilvægu verkefni sem okkur hafa verið falin. Það eru fyrirmyndir að viðlíka stofnunum víðsvegar í hinum vestræna heimi, einingum sem þjónusta skólastarfið með því að nýta þekkingu og reynslu starfsfólks á breiðum grunni. Við ætlum að vera þessi aðili fyrir skólastarf á Íslandi og stuðla þannig að framúrskarandi menntun og farsæld barna og ungmenna um allt land.“

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Hafðu samband

Símanúmer: 514 7500
Netfang: postur@midstodmenntunar.is
Póstlistaskráning

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga:
09:00 - 15:00
Föstudaga: 09:00 - 12:00

Heim­il­is­fang

Víkurhvarf 3
203 Kópavogur

Kennitala: 660124-1280