Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2025

7. október 2025

Tilkynnt hefur verið um þau sem tilnefnd eru til Íslensku menntaverðlaunanna í ár en markmið þeirra er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi um land allt.

Verðlaunin eru veitt árlega fyrir framúrskarandi skólastarf, kennslu, þróunarverkefni eða framlag til iðn- og verkmenntunar. Þau minna okkur á hversu mikilvæg störf kennara, skólastjórnenda og starfsfólks skóla eru og halda því um leið á lofti hvernig samstarf, fagmennska og hugmyndauðgi geta skapað djúpstæð áhrif í lífi barna og ungmenna. 

Verðlaunaafhending fer fram við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í byrjun nóvember, þar sem einnig verða veitt sérstök hvatningarverðlaun. 

Tilnefningar 2025 Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur 

  • Leikskólinn Iðavöllur á Akureyri – fyrir fjölþætt og markvisst þróunarstarf þar sem ríkir lausnamiðað viðhorf og stöðug viðleitni til umbóta. 

  • Víkurskóli í Reykjavík – fyrir skapandi og heildrænt þróunarstarf með áherslu á listir, nýsköpun og teymiskennslu þar sem nemendur vinna að fjölbreyttum þverfaglegum viðfangsefnum. 

  • Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar – fyrir gróskumikið tónlistarstarf sem hefur vaxið og dafnað í samstarfi kennara, listafólks og nemenda og stuðlar að virkni og gleði barna í námi. 

Kennarar 

  • Gunnar Ásgeir Sigurjónsson, framhaldsskólakennari á pípulagningabraut Tækniskólans – fyrir einstaka alúð við nemendur og fagmennsku í kennslu. 

  • Hjördís Óladóttir, grunnskólakennari við Hrafnagilsskóla – fyrir skapandi og fjölbreytta kennsluhætti og hæfileika til að skapa örvandi námsumhverfi þar sem börn blómstra. 

  • Ingibjörg Jónasdóttir, leikskólakennari við leikskólann Rauðhól – fyrir farsælt brautryðjendastarf í að efla áhuga barna á bókum og lestri. 

  • Laufey Einarsdóttir, grunnskólakennari í Sæmundarskóla – fyrir faglega og árangursríka stærðfræðikennslu sem byggir á gleði, virkni og skýrleika. 

  • Örvar Rafn Hlíðdal, íþróttakennari við Flóaskóla – fyrir framúrskarandi íþróttakennslu sem byggir á hvatningu, aga og samkennd. 

Þróunarverkefni 

  • Gullin í grenndinni – samstarfsverkefni leikskólans Álfheima og Vallaskóla á Selfossi um nám úti í náttúrunni, sem hefur þróast í lifandi hluta skólastarfs beggja skóla. 

  • Íslenskubrú Breiðholts – samstarfsverkefni grunnskólanna í Breiðholti sem miðar að því að efla íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku og byggja brú milli skóla, fjölskyldna og samfélags. 

  • Lítil skref á leið til læsis – samstarfsverkefni leikskólans Grænuvalla og Borgarhólsskóla á Húsavík um málörvun og læsi, þar sem kennarar og fagfólk vinna saman að því að efla læsisgrunn yngstu barnanna. 

Iðn- og verkmenntun 

  • Fataiðndeild Tækniskólans – fyrir metnaðarfulla og faglega kennslu sem byggir á einstaklingsmiðuðu námi og raunverulegum verkefnum. 

  • Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum – fyrir nýstárlega nálgun í málm- og vélstjórnargreinum þar sem hefðbundið nám hefur verið umbreytt í verkefna- og atvinnutengt nám. 

  • Unnar Þorsteinn Bjartmarsson, kennari við Grunnskóla Borgarfjarðar og Fjölbrautaskóla Vesturlands – fyrir að kveikja áhuga nemenda á öllum aldri á iðn- og verknámi og leggja grunn að framtíðarstarfsfólki í greininni. 

 Íslensku menntaverðlaunin eru samstarfsverkefni fjórtán aðila undir forystu forseta Íslands, og endurspegla sameiginlega sýn menntasamfélagsins á mikilvægi faglegs metnaðar og umbóta í skólastarfi. Frekari upplýsingar og greinargerðir tilnefninga má finna á vef Samtaka áhugafólks um skólaþróun. 

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Hafðu samband

Símanúmer: 514 7500
Netfang: postur@midstodmenntunar.is
Póstlistaskráning

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga:
09:00 - 15:00
Föstudaga: 09:00 - 12:00

Heim­il­is­fang

Víkurhvarf 3
203 Kópavogur

Kennitala: 660124-1280