Sumarlestur 2024
7. júní 2024
Lestrarhetjan – Í Skarkalabæ er allt í rugli!
Við skorum á lestrarhetjur landsins að skunda á almenningsbókasafn og taka þátt í að bjarga fólki og furðuverum úr bráðri hættu. Það er gert með því að lesa helling, spila skemmtilegt borðspil sem reynir á orðaforða og rökhugsun, og klífa þannig hetjuskalann. Lestrarhestar á aldrinum 6-12 ára eru hvattir til að taka þátt en auðvitað mega allir áhugasamir bókabéusar vera með!
Bergrún Íris Sævarsdóttir mynd- og rithöfundur og Steingerður Lóa Gunnarsdóttir leikjahönnuður, sáu um hugmyndavinnuna en Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir, verkefnisstjóri barna- og unglingastarfs hjá Borgarbókasafninu, leiddi teymi á vegum almenningsbókasafnanna. Starfsfólk Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu annaðist svo umbrot, prentun og dreifingu. Aðrir samstarfaðilar eru Mennta- og barnamálaráðuneyti, Heimili og skóli, Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna, Samtök fagfólks á skólasöfnum og Bókmenntaborgin – UNESCO.
Þá er ekki eftir neinu að bíða og munið að LESTUR VEITIR OFURKRAFT!