RISAstórar smáSÖGUR 2024
10. júní 2024
Risastórar smásögur, sem innihalda sögur eftir 26 börn á aldrinum 6 – 12 ára, eru nú komnar út í sjöunda skiptið hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Útgáfa Risastórra smásagna er hluti af samstarfsverkefninu Sögur sem hélt verðlaunahátíð sína í beinni útsendingu á RÚV síðastliðinn laugardag.
Að vanda hlutu tvær smásögur Svaninn en hann er veittur fyrir sögur sem þykja skara fram úr. Verðlaunahafinn í flokki 6-9 ára var Ósk Hjaltadóttir 8 ára, sem hlaut viðurkenningu fyrir smásögu sína Geimverustyttan en í flokki 10-12 ára var það smásagan Hin jörðin eftir Tinna Snæ Aðalsteinsson 11 ára sem hlaut viðurkenningu.
Með þátttöku í smásagnasamkeppni Sagna fá börn tækifæri til að komast að því hvort í þeim blundi rithöfundur. Börn sem senda inn efnilega sögu fá tækifæri til að sitja námskeið með teiknara, rithöfundi og handritshöfundi sem gefa þeim góð ráð en þau fá einnig að vinna undir handleiðslu ritstjóra sem aðstoðar þau við að fínpússa sögurnar sínar fyrir útgáfu. Í ár varð það Gunnar Theodór Eggertsson rithöfundur sá um ritstjórnina og ritaði formála bókarinnar.
Öll áhugasöm börn, kennarar og forsjáraðilar eru hvattir til að fylgjast vel með Sögum næsta haust svo hægt sé að nýta þetta einstaka tækifæri til að búa til nýja rithöfunda sem skrifa, skapa og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Bókina má finna á námsefnisvef.