Fara beint í efnið
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Öllum tryggt pláss í framhaldsskólum

24. júní 2024

Alls bárust 4.677 umsóknir um pláss í framhaldsskólum landsins haustið 2024 en innritun er nú lokið. Það er gaman að segja frá því að allir nýnemar úr grunnskóla sem sóttu um hafa fengið inngöngu. Þannig var hægt að samþykkja allar umsóknir í verknám, frá nýnemum sem uppfylltu inntökuskilyrði, en á undanförnum árum hefur þurft að vísa stórum hluta frá vegna skorts á aðstöðu og kennurum.

innritun mynd af höndum

Mennta- og barnamálaráðuneytið, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og framhaldsskólar hafa lagt höfuðáherslu á að koma öllum nýnemum úr grunnskóla að á haustönn. Unnið hefur verið að auknu námsframboði framhaldsskóla til að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp s.s. aukinn fjölda nemenda á starfsbrautum, í verknámi eða með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

„Með góðu samstarfi framhaldskólanna og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu hefur tekist að innrita alla nýnema undir 18 ára í framhaldsskóla. Það er mikill áfangi og vil ég þakka okkar öfluga skólafólki fyrir að svara ákallinu. Það er sérstakt ánægjuefni að sjá að skólakerfið okkar getur tekið við öllum nýnemum í verknám en það hefur einmitt verið eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

84,5% nemenda fá inni í þeim skóla sem þau sóttu um sem fyrsta val á meðan 11,8% fá pláss í þeim skóla sem þau völdu sem annað val. Alltaf eru einhverjir nemendur sem fá ekki inngöngu í annan af þeim skólum sem sótt var um en þeim er þá úthlutað plássi í þriðja skóla. Þetta árið eru þetta 3,7% umsækjenda.

Skipting milli starfsnáms og bóknáms er með svipuðu sniði og undanfarin ár en alls munu 17,6% nemenda innritast í starfsnám næsta haust. Flestar umsóknir bárust Tækniskólanum en heildarfjölda umsókna í hvern skóla, ásamt úthlutuðum plássum má sjá í meðfylgjandi töflu.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Hafðu samband

Símanúmer: 514 7500
Netfang: postur@midstodmenntunar.is
Póstlistaskráning

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga:
09:00 - 15:00
Föstudaga: 09:00 - 12:00

Heim­il­is­fang

Víkurhvarf 3
203 Kópavogur

Kennitala: 660124-1280