Matsferill í stað samræmdra prófa
8. ágúst 2024
Miklar væntingar standa til þess að niðurstöður Matsferils nýtist til umbóta í skólastarfi. Grein eftir Freyju Birgisdóttur, sviðstjóra matsviðs sem birtist í Morgunblaðinu, fimmtudaginn 8. ágúst 2024.
Menntamálaráðherra birti nýverið áform í samráðsgátt um að leggja niður samræmd könnunarpróf og innleiða í stað þeirra nýtt námsmatskerfi sem fengið hefur nafnið Matsferill. Samræmd próf hafa lengi verið mikilvægur hluti af íslensku menntakerfi og því ekki að undra að svo stórt og afgerandi skref skapi miklar umræður í samfélaginu og jafnvel efasemdir um það fyrirkomulag sem taka á við. Nýrri Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hefur verið falið að þróa og innleiða Matsferil og er það eitt af okkar mikilvægustu verkefnum. Því viljum við varpa skýrara ljósi á hvað Matsferill er og hvaða hlutverki hann komi til með að gegna í skólastarfi.
Metur námslega framvindu jafnt og þétt
Matsferill er safn matstækja sem dregur upp heildstæða mynd af námslegri stöðu og framförum nemenda jafnt og þétt yfir skólagönguna og kemur auga á þau börn sem telja má í áhættu vegna framvindu í námi og þroska. Hlutverk hans tvíþætt: Annars vegar að fylgjast með hverju barni og tryggja að það fái viðeigandi kennslu og stuðning. Hins vegar er Matsferli ætlað að afla upplýsinga um stöðu skólakerfisins í heild þannig að stefnumótandi aðilar geti fylgst með þróun námsárangurs yfir tíma og greint styrkleika og mögulegar áskoranir.
Matsferill mun ná yfir vítt svið, en í fyrstu verður lögð áhersla á að meta framvindu í málþroska, læsi og stærðfræði. Prófin samanstanda af stöðluðum stöðu- og framvinduprófum, skimunarprófum og öðrum verkfærum sem kennarar geta notað eftir hentugleika til stuðnings við mat og kennslu. Prófin verða í flestum tilfellum rafræn sem skapar möguleika á að tengja niðurstöður þeirra við Frigg nemendagrunn, sem nú er í smíðum. Þannig verður í fyrsta skipti hægt að auðga niðurstöður námsmats í íslenskum grunnskólum með fjölbreyttum gögnum. Þá verður hægt að tengja niðurstöður Matsferils við námsgagnaveitu og raungera þannig þá áherslu að mæta hverju barni þar sem það er statt hverju sinni, með námsgögnum við hæfi.
Stöðu- og framvindupróf Matsferils
Stöðu- og framvindupróf eru mikilvægur hluti Matsferils, en markmið þeirra er að draga upp sem nákvæmasta mynd af því hvar áskoranir og styrkleikar nemenda liggja. Flestir skólar hafa í nokkur ár lagt mat á stöðu og framfarir nemenda 1.-10. bekkjar í lesfimi. Næstu skref snúa að prófum í lesskilningi og stærðfræði en sú vinna er langt á veg komin. Kennarar munu leggja þau próf fyrir einu sinni til tvisvar á hverju skólaári. Þannig er vonast til að niðurstöður þeirra nýtist kennurum til skipulagningar kennslu að hausti og til mats á árangri kennslunnar að vori. Slík hringrás mats og kennslu er mikilvægur grunnur markvissra kennsluhátta og auðveldar kennurum að aðlaga kennslu ólíkum þörfum. Í fyrstu munu prófin ná yfir 4., 6., 8. og 10. bekk, en fleiri árgangar munu bætast við síðar.
Stöðu- og framvindupróf Matsferils eru samræmd en fyrirlögn sveigjanlegri en í tilfelli gömlu samræmdu prófanna, þar sem hún miðast ekki við einn ákveðinn dag heldur lengri prófaglugga. Þannig verður auðveldara að laga prófin að kennsluskipulagi hvers skóla. Hverju prófi fylgja aldursbundin viðmið um framvindu og því mögulegt að bera niðurstöður hvers nemanda, bekkjar eða skóla saman við niðurstöður fyrir landið í heild. Íslenskt skólakerfi mun því hafa greiðari aðgang að vönduðum samræmdum mælikvörðum en nokkru sinni áður. Í niðurstöðum starfshóps um samræmt námsmat er gert ráð fyrir að skólar verði skyldugir til þess að leggja fyrir tiltekin próf í lesskilningi, stærðfræði og íslensku sem öðru máli.
Hvenær verður Matsferill tilbúinn?
Matsferill samanstendur af fjölbreyttum prófum og verkfærum og er innleiðing hans því langtímaverkefni. Á næstu tveimur árum verður áhersla lögð á að innleiða stöðu- og framvindupróf í lesskilningi og stærðfræði. Til þess að sem best takist til höfum við óskað samstarfs við 20 skóla á landsvísu um að nota prófin næsta skólaár og veita endurgjöf varðandi inntak þeirra, fyrirkomulag og framkvæmd. Þau verða svo innleidd í alla skóla skólaárið 2025-2026. Rammi til mats og kennslu ritunar verður einnig innleiddur á næsta skólaári, auk skimunarprófsins LANIS sem gerir kennurum kleift að finna börn með seinkaðan málskilning og tjáningu strax á leikskólaaldri. Einnig er hafin vinna við þróun vefs sem inniheldur leiðbeiningar og annað stuðningsefni sem hjálpar kennurum og foreldrum að vinna með málþroska á markvissan hátt. Málþroskapróf til notkunar á yngsta og miðstigi grunnskóla eru einnig áformuð, auk skimunarprófs á sviði stærðfræði.
Miklar væntingar standa þess til að niðurstöður Matsferils nýtist til umbóta í skólastarfi. Til þess að ná því markmiði höfum við átt náið samráð við skólasamfélagið á mismunandi tímum í ferlinu þar sem leitað hefur verið eftir sjónarmiðum nemenda, foreldra, kennara, skólastjórnenda og annarra hagsmunaaðila innan skólakerfisins. Þróun Matsferils hvílir á því samráði og það er okkar einlæga trú að úr verði hagnýtt verkfæri sem nýtist skólasamfélaginu.