Fara beint í efnið
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Matsferill í stað samræmdra prófa

8. ágúst 2024

Miklar væntingar standa til þess að niðurstöður Matsferils nýtist til umbóta í skólastarfi. Grein eftir Freyju Birgisdóttur, sviðstjóra matsviðs sem birtist í Morgunblaðinu, fimmtudaginn 8. ágúst 2024.

Freyja Birgisdóttir

Mennta­málaráðherra birti ný­verið áform í sam­ráðsgátt um að leggja niður sam­ræmd könn­un­ar­próf og inn­leiða í stað þeirra nýtt náms­mat­s­kerfi sem fengið hef­ur nafnið Mats­fer­ill. Sam­ræmd próf hafa lengi verið mik­il­væg­ur hluti af ís­lensku mennta­kerfi og því ekki að undra að svo stórt og af­ger­andi skref skapi mikl­ar umræður í sam­fé­lag­inu og jafn­vel efa­semd­ir um það fyr­ir­komu­lag sem taka á við. Nýrri Miðstöð mennt­un­ar og skólaþjón­ustu hef­ur verið falið að þróa og inn­leiða Mats­fer­il og er það eitt af okk­ar mik­il­væg­ustu verk­efn­um. Því vilj­um við varpa skýr­ara ljósi á hvað Mats­fer­ill er og hvaða hlut­verki hann komi til með að gegna í skóla­starfi.

Met­ur náms­lega fram­vindu jafnt og þétt

Mats­fer­ill er safn mats­tækja sem dreg­ur upp heild­stæða mynd af náms­legri stöðu og fram­förum nem­enda jafnt og þétt yfir skóla­göng­una og kem­ur auga á þau börn sem telja má í áhættu vegna fram­vindu í námi og þroska. Hlut­verk hans tvíþætt: Ann­ars veg­ar að fylgj­ast með hverju barni og tryggja að það fái viðeig­andi kennslu og stuðning. Hins veg­ar er Mats­ferli ætlað að afla upp­lýs­inga um stöðu skóla­kerf­is­ins í heild þannig að stefnu­mót­andi aðilar geti fylgst með þróun náms­ár­ang­urs yfir tíma og greint styrk­leika og mögu­leg­ar áskor­an­ir.

Mats­fer­ill mun ná yfir vítt svið, en í fyrstu verður lögð áhersla á að meta fram­vindu í málþroska, læsi og stærðfræði. Próf­in sam­an­standa af stöðluðum stöðu- og fram­vindu­próf­um, skimun­ar­próf­um og öðrum verk­fær­um sem kenn­ar­ar geta notað eft­ir hent­ug­leika til stuðnings við mat og kennslu. Próf­in verða í flest­um til­fell­um ra­f­ræn sem skap­ar mögu­leika á að tengja niður­stöður þeirra við Frigg nem­enda­grunn, sem nú er í smíðum. Þannig verður í fyrsta skipti hægt að auðga niður­stöður náms­mats í ís­lensk­um grunn­skól­um með fjöl­breytt­um gögn­um. Þá verður hægt að tengja niður­stöður Mats­fer­ils við náms­gagna­veitu og raun­gera þannig þá áherslu að mæta hverju barni þar sem það er statt hverju sinni, með náms­gögn­um við hæfi.

Stöðu- og fram­vindu­próf Mats­fer­ils

Stöðu- og fram­vindu­próf eru mik­il­væg­ur hluti Mats­fer­ils, en mark­mið þeirra er að draga upp sem ná­kvæm­asta mynd af því hvar áskor­an­ir og styrk­leik­ar nem­enda liggja. Flest­ir skól­ar hafa í nokk­ur ár lagt mat á stöðu og fram­far­ir nem­enda 1.-10. bekkj­ar í les­fimi. Næstu skref snúa að próf­um í lesskiln­ingi og stærðfræði en sú vinna er langt á veg kom­in. Kenn­ar­ar munu leggja þau próf fyr­ir einu sinni til tvisvar á hverju skóla­ári. Þannig er von­ast til að niður­stöður þeirra nýt­ist kenn­ur­um til skipu­lagn­ing­ar kennslu að hausti og til mats á ár­angri kennsl­unn­ar að vori. Slík hringrás mats og kennslu er mik­il­væg­ur grunn­ur mark­vissra kennslu­hátta og auðveld­ar kenn­ur­um að aðlaga kennslu ólík­um þörf­um. Í fyrstu munu próf­in ná yfir 4., 6., 8. og 10. bekk, en fleiri ár­gang­ar munu bæt­ast við síðar.

Stöðu- og fram­vindu­próf Mats­fer­ils eru sam­ræmd en fyr­ir­lögn sveigj­an­legri en í til­felli gömlu sam­ræmdu próf­anna, þar sem hún miðast ekki við einn ákveðinn dag held­ur lengri prófa­glugga. Þannig verður auðveld­ara að laga próf­in að kennslu­skipu­lagi hvers skóla. Hverju prófi fylgja ald­urs­bund­in viðmið um fram­vindu og því mögu­legt að bera niður­stöður hvers nem­anda, bekkj­ar eða skóla sam­an við niður­stöður fyr­ir landið í heild. Íslenskt skóla­kerfi mun því hafa greiðari aðgang að vönduðum sam­ræmd­um mæli­kvörðum en nokkru sinni áður. Í niður­stöðum starfs­hóps um sam­ræmt náms­mat er gert ráð fyr­ir að skól­ar verði skyldug­ir til þess að leggja fyr­ir til­tek­in próf í lesskiln­ingi, stærðfræði og ís­lensku sem öðru máli.

Hvenær verður Mats­fer­ill til­bú­inn?

Mats­fer­ill sam­an­stend­ur af fjöl­breytt­um próf­um og verk­fær­um og er inn­leiðing hans því lang­tíma­verk­efni. Á næstu tveim­ur árum verður áhersla lögð á að inn­leiða stöðu- og fram­vindu­próf í lesskiln­ingi og stærðfræði. Til þess að sem best tak­ist til höf­um við óskað sam­starfs við 20 skóla á landsvísu um að nota próf­in næsta skóla­ár og veita end­ur­gjöf varðandi inn­tak þeirra, fyr­ir­komu­lag og fram­kvæmd. Þau verða svo inn­leidd í alla skóla skóla­árið 2025-2026. Rammi til mats og kennslu rit­un­ar verður einnig inn­leidd­ur á næsta skóla­ári, auk skimun­ar­prófs­ins LANIS sem ger­ir kenn­ur­um kleift að finna börn með seinkaðan málskiln­ing og tján­ingu strax á leik­skóla­aldri. Einnig er haf­in vinna við þróun vefs sem inni­held­ur leiðbein­ing­ar og annað stuðnings­efni sem hjálp­ar kenn­ur­um og for­eldr­um að vinna með málþroska á mark­viss­an hátt. Málþroskapróf til notk­un­ar á yngsta og miðstigi grunn­skóla eru einnig áformuð, auk skimun­ar­prófs á sviði stærðfræði.

Mikl­ar vænt­ing­ar standa þess til að niður­stöður Mats­fer­ils nýt­ist til um­bóta í skóla­starfi. Til þess að ná því mark­miði höf­um við átt náið sam­ráð við skóla­sam­fé­lagið á mis­mun­andi tím­um í ferl­inu þar sem leitað hef­ur verið eft­ir sjón­ar­miðum nem­enda, for­eldra, kenn­ara, skóla­stjórn­enda og annarra hags­munaaðila inn­an skóla­kerf­is­ins. Þróun Mats­fer­ils hvíl­ir á því sam­ráði og það er okk­ar ein­læga trú að úr verði hag­nýtt verk­færi sem nýt­ist skóla­sam­fé­lag­inu.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Hafðu samband

Símanúmer: 514 7500
Netfang: postur@midstodmenntunar.is
Póstlistaskráning

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga:
09:00 - 15:00
Föstudaga: 09:00 - 12:00

Heim­il­is­fang

Víkurhvarf 3
203 Kópavogur

Kennitala: 660124-1280