Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Líf og fjör hjá starfsfólki Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu í vikunni

15. ágúst 2025

Auk hefðbundinna verkefna var dagskrá vikunnar einstaklega fjölbreytt og skemmtileg. Starfsfólk kom við á mörgum stöðum og átti samtöl við kennara, skólastjórnendur, annað skólafólk, sérfræðinga og áhugasama um hin ýmsu verkefni og málefni sem snerta störf okkar.

Í vikunni fóru meðal annars fram sumarsmiðjur kennara á vegum Miðju máls og læsis. Námskeið í notkun Ritunarrammans og sérstakar vinnustofur um skipulag náms og kennslu út frá hæfnimiðaðri aðalnámskrá. Sérfræðingar á vegum MEMM verkefnisins fóru einnig upp á Akranes og voru með kynningu á námsefni og kennslu í íslensku sem öðru tungumáli, hlutverki brúarsmiða og farsælum samskiptum.

Málstofan Íslensk námsgögn – hvað er til? bauð upp á lifandi umræður og kynningar á fjölbreyttu námsefni. Þar gátu þátttakendur kynnt sér námsbækur og spil, stafrænt efni og verkefni sem styðja við kennslu á öllum skólastigum. Páll Ásgeir Torfason, stafrænn leiðtogi hjá okkur, flutti þar erindi um framtíðarsýn miðstöðvarinnar og við vorum með nýleg námsgögn til sýnis. Að auki áttum við auðvitað einnig áhugaverð og skemmtileg samtöl um hinar ýmsu hliðar námsefnisútgáfu.

Í Stekkjaskóla á Selfossi var ráðstefna Samtaka áhugafólks um skólaþróun. Þar var fjölbreytni í skólastarfi sett í brennidepil og meðal annars ræddar leiðir til að efla skóla fyrir nemendur af ólíkum bakgrunni. Starfsfólk okkar tók virkan þátt, bæði með erindum, þátttöku í umræðum og smiðjum. Stemningin var jákvæð og samstarfsviljinn skein í gegn, enda markmið ráðstefnunnar að hvetja til samvinnu, nýrra hugmynda og gagnlegs samtals.

Nýlegt námsefni

Í stuttu máli: Smásögur og verkefni fyrir nemendur sem læra íslensku sem annað tungumál á 2. hæfnistigi samkvæmt hæfnirammanum í kafla 19.4 í aðalnámskrá grunnskóla. Þær henta nemendum á miðstigi og unglingastigi. Sögurnar eru misþungar og stigþyngjast eftir því sem líður á.

París: Fyrsta bókin í bókaflokknum Að heiman og heim sem segir frá fólki sem hefur flutt í nýtt land og byrjað nýtt líf. Bækurnar fjalla um hvernig það er að kveðja eitt heimili – og finna annað. Því það er vel hægt að kalla tvo staði heim án þess að gleyma uppruna sínum.

Skrift 2a: Megináherslur í skriftarnámsefni á þrepi tvö eru að nemendur beiti réttum stafdrætti og tileinki sér réttar tengingar við ritun hálftengdrar ítalíuskriftar. Í þjálfuninni er tækifærið notað til að kynna fyrir nemendum ritun algengra orða og einfaldar reglur í réttritun.

Skrift – handbók kennara: Í handbókinni er að finna hugmynd að heildstæðri skriftarkennslu fyrir grunnskóla, verklagi og einstaklingsmiðuðum leiðum til að kenna, þjálfa og meta skrift. Handbókin inniheldur jafnframt ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir bæði reynda og óreynda skriftarkennara sem munu nýtast vel í skriftarkennslunni.

Skriftarsmiðjan: Í Skriftarsmiðjunni má útbúa fjölbreytt þjálfunarefni í skrift og velja þá leturstærð sem hentar hverjum nemenda. Hægt er að útbúa efni til að æfa betur réttan stafdrátt bókstafa og tölustafa, tengingar, notkun greinarmerkja eða annað sem þarf að þjálfa betur. Vefurinn býður einnig upp á forskrift fyrir örvhenta.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Hafðu samband

Símanúmer: 514 7500
Netfang: postur@midstodmenntunar.is
Póstlistaskráning

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga:
09:00 - 15:00
Föstudaga: 09:00 - 12:00

Heim­il­is­fang

Víkurhvarf 3
203 Kópavogur

Kennitala: 660124-1280