Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Leikskólar í Árnesþingi ljúka innleiðingu verkefnis um málþroska og læsi með uppskeruhátíð

17. nóvember 2025

Innleiðingarári þróunarverkefnisins Snemmtæk íhlutun með áherslu á málþroska og læsi í Árnesþingi lauk nýverið með uppskeruhátíð sex leikskóla sem tóku þátt í verkefninu. Leikskólarnir sem tóku þátt eru Álfaborg, Bláskógarskóli, Kerhólsskóli, Krakkaborg, Leikholt og Undraland.

Verkefnið miðar að því að efla málþroska leikskólabarna með því að styrkja þekkingu og færni starfsfólks í snemmtækri íhlutun og málörvun. Meðal annars er lögð áhersla á uppbyggingu málörvunarstunda, að tengja málörvun við daglegt líf og leikaðstæður barnanna, efla foreldrasamstarf og samstarf við heilsugæslu og taka mið af fjölbreyttum tungumálabakgrunni barna.

Afrakstur vinnunnar í hverjum leikskóla birtist í handbók sem fangar sýn og stefnu starfsfólks í málörvun og snemmtækri íhlutun til framtíðar. Á hátíðinni kynntu fulltrúar leikskólanna valin atriði úr sínum handbókum sem unnar hafa verið sl. ár.

Heiðursgestur var Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur og höfundur verkefnisins, og voru henni færðar þakkir fyrir mikilvægt framlag í þágu málþroska barna. Í lok hátíðarinnar færði Miðstöð menntunar og skólaþjónustu leikskólunum bókagjöf með þökkum fyrir árangursríkt samstarf. Bækurnar voru Bína fer í sveit eftir Ásthildi, höfund verkefnisins, og ljóðabókin Dásamleg dýr eftir Ingibjörgu Birgisdóttur.

Þess má geta að verkefnið Snemmtæk íhlutun með áherslu á málþroska og læsi var tilnefnt til Íslensku menntaverðlaunanna árið 2024 og alls hafa um sextíu leikskólar víða um land tekið þátt í því frá upphafi.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Hafðu samband

Símanúmer: 514 7500
Netfang: postur@midstodmenntunar.is
Póstlistaskráning

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga:
09:00 - 15:00
Föstudaga: 09:00 - 12:00

Heim­il­is­fang

Víkurhvarf 3
203 Kópavogur

Kennitala: 660124-1280