Kennsluvefur um heimsmarkmiðin opnaður - ungt fólk í lykilhlutverki
15. október 2025
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hefur í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, með stuðningi Utanríkisráðuneytisins og Mennta- og barnamálaráðuneytisins, opnað nýjan kennsluvef – verdurheimurinnbetri.is. Vefurinn tengist íslenskri útgáfu bókarinnar Verður heimurinn betri? sem María Rún Þorsteinsdóttir þýddi af mikilli prýði.

Við opnun vefsins kom saman fjölmennur hópur ungs fólks frá UNESCO-skólanum í Fjölbrautaskólanum við Ármúla til að kynna sér efnið og taka þátt í kosningu um þau málefni sem skipta ungt fólk mestu máli í dag. Friður virðist vera ungu fólki hugleikið málefni í dag því hann stóð upp úr í kosningunni.
Öflugt teymi frá 14Islands, undir forystu Hjartar Hilmarssonar, hannaði vefinn og lagði í því verkefni sérstaka áherslu á að fá ungt fólk til samstarfs við sig.
„Þetta er einstakt verkefni sem sýnir hvað ungt fólk hefur sterka rödd og getur haft raunveruleg áhrif á það hvernig við miðlum heimsmarkmiðunum,“ segir Sigrún Sóley Jökulsdóttir sérfræðingur í námsgagnagerð hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem kom að verkefninu fyrir hönd stofnunarinnar.
Markmið verkefnisins er að gera heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna aðgengileg og áhugaverð fyrir nemendur og kennara, hvetja til umræðu og virkrar þátttöku í samfélagsmálum og minna okkur á að heimurinn getur sannarlega orðið betri þegar við vinnum öll saman.
Vefurinn: verdurheimurinnbetri.is