Íslensku menntaverðlaunin 2025
6. nóvember 2025
Íslensku menntaverðlaunin 2025 voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 4. nóvember. Með verðlaununum er vakið athygli á framsæknu og vönduðu skóla- og frístundastarfi og veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi framlag til menntaumbóta á öllum skólastigum.

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, afhendir Örvari Rafni viðurkenningu sem framúrskarandi kennari/Mynd: Mummi Lú
Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum: fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur, framúrskarandi kennslu, þróunarverkefni, iðn- og verkmenntun og sérstök hvatningarverðlaun.
Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar hlýtur verðlaunin fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur
Hljómsveitin hefur um árabil skapað vettvang fyrir börn með áhuga á tónlist til að vinna saman að tónlistarsköpun og tónlistarflutningi. Starf hennar einkennist af metnaði og gleði og hefur hún staðið að fjölmörgum eftirminnilegum verkefnum í samvinnu við menningarstofnanir og samfélagið.
Lesa meira á skolathroun.is/skolahljomsveit-vesturbaejar-og-midbaejar
Örvar Rafn Hlíðdal, íþróttakennari við Flóaskóla, hlýtur verðlaunin fyrir framúrskarandi kennslu
Örvar Rafn er þekktur fyrir að ná til allra nemenda, hvetja til heilbrigðra lífshátta og efla liðsheild og jákvæð gildi í skólasamfélaginu. Undir hans stjórn hefur Flóaskóli náð frábærum árangri í Skólahreysti.
Lesa meira á skolathroun.is/orvar-rafn-hliddal
Verkefnið Lítil skref á leið til læsis, samstarfsverkefni leikskólans Grænuvalla og Borgarhólsskóla á Húsavík, hlýtur verðlaunin fyrir framúrskarandi þróunarverkefni
Verkefnið stuðlar að eflingu málþroska og læsis í gegnum aukið samstarf milli skólastiga og foreldrafræðslu. Nýskapandi þáttur verkefnisins er samvinna við sjúkraþjálfara sem leggja mat á fínhreyfingar barna og styðja við markvissa þjálfun þeirra.
Lesa meira á skolathroun.is/litil-skref-i-leid-til-laesis
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum hlýtur verðlaunin fyrir framúrskarandi starf í iðn- og verkmenntun
Skólinn hefur þróað verkefnamiðað og atvinnulífstengt nám í málm- og vélstjórnargreinum sem hefur eflt tengsl milli skóla og atvinnulífs og gert námið raunhæft og hagnýtt fyrir nemendur.
Lesa meira á skolathroun.is/framhaldsskolinn-i-vestmannaeyjum
Háaleitisskóli í Reykjanesbæ fær hvatningarverðlaunin 2025
Í skólanum eru um sjö af hverjum tíu nemendum af erlendum uppruna og þar eru töluð um 30 tungumál. Starfsfólki skólans hefur tekist að skapa jákvæða skólamenningu þar sem fjölmenning er metin sem styrkur. Samstarf við foreldra er í hávegum haft og lögð áhersla á að styðja við alla fjölskyldumeðlimi í námi og aðlögun.
Lesa meira á skolathroun.is/hvatningarverdlaun-2025
Að Íslensku menntaverðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Samtök iðnaðarins.
Mennta- og barnamálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið og Samtök iðnaðarins standa að fjármögnun verðlaunanna.
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu tekur virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd Íslensku menntaverðlaunanna og fagnar því fjölbreytta og metnaðarfulla starfi sem unnið er í íslenskum skólum og menntastofnunum.