Innleiðing Matsferils skólaárið 2025-2026
22. ágúst 2025
Sá ánægjulegi atburður átti sér stað þann 16. júní síðastliðinn að samþykktar voru á Alþingi breytingar á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 um námsmat. Þessar breytingar fela í sér að nýtt námsmatskerfi, Matsferill, verður innleitt í alla grunnskóla landsins skólaárið 2025 – 2026.

Lesfimipróf – endurbætur og fyrirlögn í nýju kerfi
Lesfimipróf og stuðningspróf þeirra verða hluti af Matsferli og munu allir skólar leggja þau fyrir í gegnum nýtt viðmót Matsferils frá og með 1. janúar 2026. Fyrirlögn í september verður hins vegar með sama sniði og áður, þ.e. prófin verða lögð fyrir nemendur í gegnum Skólagátt. Við minnum á mikilvægi þess að skólar uppfæri nemendalista sína í Skólagátt vegna fyrirlagnarinnar í september, en hægt verður að leggja lesfimiprófin fyrir þann 1. – 30. september, eins og venjulega.
Stöðu- og framvindupróf – prófagluggi í mars
Samræmd stöðu- og framvindupróf Matsferils í lesskilningi og stærðfræði verða lögð fyrir nemendur 4. – 10. bekkjar allra grunnskóla landsins, en boðið verður upp á opinn prófaglugga frá 2. – 27. mars 2026. Skólum er skylt að leggja prófin fyrir nemendur í 4., 6. og 9. bekk. Ákvörðun um notkun prófanna í öðrum árgöngum er í höndum kennara, skólastjóra eða fræðsluyfirvalda hvers sveitarfélags. Fyrirhugaðir eru rafrænir fundir með skólastjórum allra grunnskóla landsins þann 15. og 17. september þar sem farið verður nánar yfir skipulag og tímalínu innleiðingar prófanna.
Fundarboð hefur þegar verið sent út frá Skólastjórafélagi Íslands.