Hvað er þetta MEMM?
29. október 2024
Fríða Bjarney Jónsdóttir, samhæfingastjóri MEMM hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu skrifaði grein sem birtist á Vísi 29. október. Verkefnið MEMM stendur fyrir „menntun, móttaka og menning“ og er þróunarverkefni sem ætlað er að bregðast við breyttum samfélagsaðstæðum á Íslandi, þar sem fjölbreytni eykst stöðugt.
Í greininni segir: „Síðustu tíu ár hefur hlutfall innflytjenda á Íslandi hækkað úr 8% í 18% og í leik- og grunnskólum landsins eru börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn orðin um það bil þriðjungur að meðaltali. Líklegt er að þessi þróun haldi áfram og því löngu tímabært að bregðast við víðtæku ákalli um að málefnum þeirra verði betur sinnt.“
MEMM er þróunarerkefni sem unnið er í samvinnu milli mennta- og barnamálaráðuneytisins, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Reykjavíkurborgar og fleiri sveitarfélaga og miðar að því að skapa samræmda stefnu fyrir móttöku og menntun barna með fjölbreyttan bakgrunn í íslenskum skólum. Verkefnið byggir á því að menntun sé jöfn og aðgengileg fyrir öll börn óháð bakgrunni þeirra, og leggur sérstaka áherslu á „að litið sé á fjölbreytt tungumál og menningu sem auðlind sem hlúa ber að, ásamt því að endurmeta eigin viðhorf og orðræðu í málaflokknum.“
Nú þegar hafa verið settar af stað íslenskubrautir fyrir nemendur með annað tungumál í framhaldsskólum, auk þess sem unnið er að því að þróa ný ráðgjafaúrræði og verkfæri fyrir kennara, sveitarfélög og skóla, sem nýtast á landsvísu. „Verkefnið krefst þess að við vinnum saman, tileinkum okkur framtíðarsýn og kjark til að þróa og prófa fjölbreyttar leiðir,“ eins og segir í greininni, þar sem lögð er áhersla á að tryggja farsæld allra barna og að byggja upp samfélag þar sem fjölbreytileiki er virtur og efldur.
Þetta þróunarverkefni stuðlar þannig að virkri þátttöku barna með fjölbreyttan bakgrunn, bæði námslega og félagslega, og skapar grundvöll fyrir framtíðarsýn sem byggir á inngildingu og menningarnæmi í íslensku samfélagi.
Greinina má nálgast hér.
Fríða Bjarney og Donata H. Bukowska, sérfræðingur hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu fóru í viðtal í Morgunútvarpinu hjá Rás 2 25. október og sögðu frá því hvernig verkefninu er ætlað að stuðla að inngildingu og virkri þátttöku bara af erlendum uppruna í íslensku samfélagi. Hægt er að hlusta á viðtal hér, þær byrja á 54 mínútu.