Fimm sveitarfélög í samstarf um Snemmtæka íhlutun með áherslu á mál og læsi
4. nóvember 2024
Við skrifuðum undir samstarfssamning við Skóla og velferðarþjónustu Árnesþings (SVÁ) sl. föstudag, 1. nóvember, varðandi verkefnið Snemmtæk íhlutun í leikskólum með áherslu á mál og læsi. Katrín Ósk Þráinsdóttir, læsisfræðingur hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, og Helgi Kjartansson, fulltrúi Byggðasamlags Árnesþings, skrifuðu undir samninginn.
Undirritunin fór fram í Kerhólsskóla á formlegum upphafsdegi verkefnis en við það tækifæri afhentum við leikskólunum námsefni að gjöf. Að auki fengu þátttakendur verkefnisins, allt starfsfólk leikskólanna, fræðslu frá Signýju Gunnarsdóttur talmeinafræðingi hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og Halldóru Guðlaugu Helgadóttur verkefnisstjóra.
Alls taka sex leikskólar þátt í verkefninu: Álfaborg og Bláskógaskóli í Bláskógabyggð, Kerhólsskóli í Grímsnes og Grafningshreppi, Krakkaborg í Flóahreppi, Leikholt í Skeið- og Gnúpverjahreppi og Undraland í Hrunamannahreppi.
Höfundur þessa mikilvæga verkefnis er Ásthildur Bj. Snorradóttir, en við höfum verið svo lánsöm að hafa áður verið í samstarfi við hana varðandi innleiðingu verkefnisins í fimm sveitarfélögum og því eru sveitarfélögin sem hafa tekið upp verkefnið nú orðin tíu, því Byggðasamlag Árnesþings samanstendur af fimm sveitarfélögum.
Verkefnið um Snemmtæka íhlutun hefur tvö meginmarkmið. Annars vegar að hámarka árangur allra barna hvað varðar málþroska og grunnþætti læsis og fyrirbyggja eða draga þannig úr áhrifum lestrarörðugleika. Hins vegar að auka þekkingu og hæfni alls starfsfólks leikskólanna með það fyrir augum að öll börn fái íhlutun og áskoranir við hæfi í leik og starfi.
Áhersla er á að vinnubrögðin og verkferlarnir sem unnir eru í verkefninu haldi áfram eftir að innleiðingu lýkur og heldur Gunnlaug Hartmannsdóttir deildarstjóri hjá SVÁ utan um verkefnið í heimabyggð í þéttu samstarfi við Önnu Stefaníu Vignisdóttur talmeinafræðing skólaþjónustunnar.