Ég og umheimurinn - nýtt námsefni fyrir miðstig
12. desember 2025
Hvernig hefur tækniþróun áhrif á líf okkar? Er friður raunveruleiki eða óskhyggja? Hvernig tryggjum við framtíð réttláts heims?

Þessar og fleiri stórar spurningar eru í brennidepli í bókinni Ég og umheimurinn eftir Garðar Gíslason – þriðju og síðustu bókinni í bókaflokknum hans, en hinar eru Ég og sjálfsmyndin og Ég og samfélagið. Myndir spila stórt hlutverk í bókunum og er myndhöfundur Blær Guðmundsdóttir.
Bækurnar leiða nemendur frá því að skoða eigið líf og nærumhverfi yfir í stærra samhengi þar sem þau sjá hvernig allt tengist – sjálfið, samfélagið og heimurinn. Þær fjalla um sjálfsþekkingu, samfélagslega ábyrgð og hnattræn málefni á aðgengilegan og hvetjandi hátt.
Ég og sjálfsmyndin
– Nemendur kynnast sjálfsmynd, vellíðan, fjölbreytileika og eigin styrkleikum.
– Hvetur til sjálfstrausts, samkenndar og jákvæðra samskipta.
Ég og samfélagið
– Kynnir hvernig lýðræði virkar og hvað einkennir gott samfélag.
– Hjálpar nemendum að átta sig á eigin hlutverki og áhrifum í nærumhverfi sínu.
Ég og umheimurinn | NÝTT
– Fjallar um hnattræn málefni á lifandi og aðgengilegan hátt: menningu, umhverfi, loftslag, réttindi barna og margt fleira.
– Setur líf nemenda í stærra samhengi og sýnir þeim að þau eru hluti af hinum stóra heimi.
Bækurnar hvetja nemendur til að hugsa sjálfstætt, sjá heiminn í stærra samhengi – og trúa því að þau geti sjálf haft áhrif.