Dagur gegn einelti 2025
6. nóvember 2025
Alþjóðlegur dagur gegn einelti er þann 8.nóvember ár hvert. Markmið dagsins er að efna til umræðu, fræðslu og viðburða sem miða að því að vinna gegn einelti, hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu. Dagurinn er þannig helgaður baráttunni gegn einelti í skólum landsins og er mikilvægt tækifæri til að minna á sameiginlega ábyrgð okkar allra til að stuðla að öruggu og jákvæðu skólaumhverfi.

Í tilefni dagsins hefur vefurinn gegneinelti.is verið uppfærður. Á vefnum má nú finna nýjar hugmyndir að verkefnum sem kennarar, skólasamfélög og frístundaheimili geta nýtt í tengslum við daginn. Verkefnin miða að því að styðja við jákvæða menningu í samskiptum barna og ungmenna og vekja athygli á mikilvægi þess að bregðast við strax þegar grunur vaknar um einelti.
Dagur gegn einelti var fyrst haldinn á Íslandi árið 2011 að frumkvæði verkefnisstjórnar í aðgerðum gegn einelti og er venja að veita einstaklingi eða verkefni, sem talin eru vinna ötullega gegn einelti, sérstök hvatningarverðlaun. Í ár fer verðlaunaafhendingin fram þann 10. nóvember.
Nánari upplýsingar og verkefni í tilefni dagsins má finna á gegneinelti.is