Fara beint í efnið
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Forsíða

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Bætt og samræmt verklag um móttöku og menntun barna af erlendum uppruna

21. maí 2024

Nýlega var undirritað í húsakynnum okkar samkomulag um þróunarverkefnið Menntun Móttaka Menning (MEMM). Því er ætlað er að stuðla að inngildingu og virkri þátttöku barna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi. Verkefnið er liður í heildarsýn ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum og aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu.

Ásmundur Einar Daðason, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, Einar Þorsteinsson

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Þórdís Jóna Sigurðardóttir forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og Einar Þorsteinsson borgarstjóri undirrituðu samkomulagið um MEMM.

MEMM miðar að því að koma á samræmdu verklagi um móttöku og menntun barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn á landsvísu í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og frístundastarfi. Jafnframt er því ætlað að þróa og tryggja öfluga ráðgjöf, námsgögn og verkfæri, sem og stuðning til lausnar flóknari aðstæðum. Nýta á þá þekkingu sem skapast hefur bæði hjá menntastofnunum og sveitarfélögum landsins og reynst hefur vel við móttöku barna af erlendum uppruna með samstarf og samhæfingu að leiðarljósi.

Með samkomulaginu sameinast Miðja máls og læsis, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem hluti af MEMM á landsvísu. Miðja máls og læsis hefur á liðnum árum byggt upp markvissa þjónustu vegna barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn í Reykjavíkurborg með góðum árangri. Stuðningur, ráðgjöf og efni tengt verkefninu verður gert aðgengilegt um allt land með áherslu á skólaskrifstofur sveitarfélaga, leik-, grunn- og framhaldsskóla, og frístundastarf þar sem börnin búa og stunda nám.

„Ég fagna því innilega að fá tækifæri til að byggja á því mikilvæga frumkvöðlastarfi sem unnið hefur verið síðustu ár. Það er mikill fengur í slíkri meðgjöf og hjálpar okkur að bjóða þessa mikilvægu þjónustu á landsvísu,“ segir Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og bætir við að starfsfólk miðstöðvarinnar sé fullt tilhlökkunar að takast á við þetta mikilvæga verkefni.

Í lok verkefnisins er stefnt að því að hægt verði að bjóða stuðning og þjónustu á þessu sviði um land allt. Mat verður lagt á fjölgun skóla sem tekið hafa þjónustuna í notkun, að starfsþróun kennara og framboð á námsefni og verkfærum vegna íslensku sem annars máls fyrir börn og kennara hafi aukist, og að stuðningsúrræði á landsvísu séu til staðar vegna barna í viðkvæmri stöðu (s.s. flóttabarna). Jafnframt er stefnt að kortlagningu gagna sem nýta má til að fylgjast með námsárangri og félagslegri virkni barnanna.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Hafðu samband

Símanúmer: 514 7500
Netfang: postur@midstodmenntunar.is
Póstlistaskráning

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga:
09:00 - 15:00
Föstudaga: 09:00 - 12:00

Heim­il­is­fang

Víkurhvarf 3
203 Kópavogur

Kennitala: 660124-1280