Alþjóðlegur dagur læsis
8. september 2025
Í dag, 8. september, er alþjóðlegur dagur læsis. Af því tilefni viljum við benda á spennandi nýtt efni á námsefnisvefnum okkar sem styður lestur, lesskilning og orðaforða nemenda á ólíkum aldri.

Álfakrílin
Barnabókin Álfakrílin hentar vel bæði í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla, sem og fyrir nemendur sem eru að stíga sín fyrstu skref í íslensku sem öðru tungumáli. Sagan um Nönu og Nóa er bæði skemmtileg og hrífandi. Bókinni fylgja leiðbeiningar um árangursríkan lestur og fjölbreytt verkefni sem efla orðaforða, tjáningu og samskiptahæfni barna.
Brennd á báli - Sögulandið
Önnur bókin í bókaflokknum Sögulandið fjallar um Guðrúnu og fjölskyldu hennar á tímum galdrafárs á Vestfjörðum. Dularfull veikindi og galdrabrennur setja svip sinn á samfélagið – en ekki allir trúa á galdra. Sagan veitir innsýn í líf barna á þessum tíma og gefur tilefni til umræðna um sögu og samfélag. Bókin hentar nemendum á miðstigi.
Í stuttu máli
Í stuttu máli er safn smásagna og verkefna fyrir nemendur sem læra íslensku sem annað tungumál. Textarnir stigþyngjast og henta vel nemendum á miðstigi og unglingastigi. Verkefnin þjálfa lesskilning, orðaforða og öll hæfnisvið tungumálanáms – hlustun, lestur, talað mál og ritun.
París – Að heiman og heim
Bókin París fjallar um Alexander, 13 ára dreng sem flytur með fjölskyldu sinni til Frakklands. Allt er framandi – borgin, skólinn og tungumálið – og Alexander á erfitt með að aðlagast nýja lífinu. En svo kynnist hann Pierre og hundinum hans, Adele. Sagan veitir innsýn í tilfinningar, áskoranir og tækifæri sem fylgja því að byrja upp á nýtt í nýju landi.. Bókin er fyrsta sagan í bókaflokknum Að heiman og heim sem fjallar um hvernig það er að kveðja eitt heimili og finna annað.
PóGó og prumpið sem bjargaði heiminum
Í bókinni er fjallað um leiðangur geimverunnar PóGó til jarðar þar sem hún kynnist börnum með ýmsar fatlanir. Ævintýri PóGó veita nemendum innsýn í fjölbreytileika mannlífsins og er ætlað að fræða þau um ólíkar fatlanir, fordóma, staðalmyndir og mannréttindi. Markmiðið er að efla virðingu fyrir fjölbreytileika, örva samkennd og stuðla að gagnrýninni hugsun um eigin viðhorf. Með því að fylgja PóGó í gegnum skoplegar en umhugsunarverðar aðstæður læra nemendur að það er í góðu lagi að spyrja, læra og viðurkenna mistök. bókaflokknum Að heiman og heim sem fjallar um hvernig það er að kveðja eitt heimili og finna annað.
RISAstórar smáSÖGUR 2025
Í rafbókunum RISAstórar smáSÖGUR, sem nú hafa komið út átta ár í röð, eru 20 skemmtilegar sögur eftir börn á aldrinum 6–12 ára. Þær voru valdar úr fjölmörgum innsendingum í samkeppni á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, KrakkaRÚV og fleiri samstarfsaðila sem standa að Sögum.
Að lokum viljum við minna á Læsisvefinn, sem er stútfullur af fróðleik og fjölbreyttu efni um læsi sem og Kynningarskrá námsefnis þar sem hægt er að kynna sér allt efnið sem við erum með í útgáfu.
Grípið endilega bók á einhverju formi og njótið lestrarins í dag – því lestur opnar nýja heima!