Ævintýraheimur orðanna til eflingar læsis leikskólabarna
26. september 2024
Við erum að springa úr stolti yfir verkefninu Orð eru ævintýri, en það er nýlegt verkfæri til eflingar læsis meðal leikskólabarna. Í fyrra var bókin Orð eru ævintýri gefin út og gefin börnum fæddum 2018, 2019 og 2020. Nú höfum við bætt um betur og fært öllum börnum fæddum 2021 bókina.
Í ár hafa svo bæst við enn fleiri skemmtileg verkfæri í þennan ævintýraheim orðanna en það eru glænýtt spil, myndaspjöld og vefurinn Orðatorg.
Saman bjóða þessi verkfæri upp á nánast endalausa möguleika til að vinna og leika með tungumálið með það að markmiði að styrkja orðaforða og málskilning. Við erum sannfærð um að bókin, myndaspjöldin og spilið nýtist vel í starfi skóla og foreldra sem uppspretta nýrra ævintýra og leikja.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Þórdísi Jónu Sigurðardóttur, forstjóra Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu þegar leikskólinn Hamrar fékk afhent fyrsta eintakið af spilinu góða.