90% stóðust íslenskupróf fyrir ríkisborgararétt
10. júlí 2024
Íslenskupróf fyrir ríkisborgararétt voru haldin dagana 14. til 31. maí. Gleðilegt er að segja frá því að af þeim 460 sem tóku prófið, stóðust 90% þær grunnkröfur sem gerðar eru til íslenskukunnáttu fyrir íslenskan ríkisborgararétt.
Metfjöldi var skráður í prófið að þessu sinni. Prófið var haldið í 21 lotu í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði. Prófin eru haldin tvisvar á ári í Reykjavík og á Akureyri, og einu sinni á ári á Egilsstöðum og Ísafirði, að vori.
Eitt af grunnskilyrðum sem umsækjendur verða að uppfylla er að hafa staðist próf í íslensku fyrir íslenskan ríkisborgararétt. Prófið miðast við lokamarkmið í grunnnámi í íslensku fyrir útlendinga (240 stundir), samkvæmt námskrá barna- og menntamálaráðuneytisins. Það samsvarar A1-A2 færnimarkmiði út frá viðmiðunarramma Evrópuráðs fyrir erlend tungumál (Common European Framework of Reference for Languages).
Sýna þarf fram á að geta:
bjargað sér við daglegar aðstæður í skóla, vinnu og einkalífi.
bjargað sér við óvæntar aðstæður.
tekið þátt í umræðum um kunnugleg málefni.
skilið einfaldar samræður.
lesið stutta texta á einföldu máli.
skrifað stutta texta á einföldu máli.
greint aðalatriði í sjónvarpi, útvarpi og dagblaði.
Næstu íslenskupróf fyrir ríkisborgararétt munu fara fram í nóvember/desember 2024 og verða auglýst á heimasíðu Mímis, www.mimir.is.