Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

EES og persónuvernd

Þessi persónuverndaryfirlýsing útskýrir hvernig Ríkislögreglustjóri vinnur með persónuupplýsingar þínar vegna Komu- og brottfararkerfisins (hér eftir „EES“). Almenn persónuverndarreglugerð (GDPR) gildir um þessa vinnslu. EES inniheldur persónuupplýsingar ríkisborgara þriðju landa sem koma inn á yfirráðasvæði Schengen-aðildarríkja til skammtímadvalar (mest 90 dagar innan 180 daga tímabils).

Kerfið verður tekið í notkun í áföngum. Frá þeim tíma verða upplýsingar um komu og brottför þína á yfirráðasvæði Schengen-aðildarríkjanna, og ef við á, upplýsingar um synjun á komu á Schengen-svæðið skráðar í EES. Í þeim tilgangi munu lögreglustjórar og ríkislögreglustjóri safna og vinna með gögnin þín. Persónuupplýsingar þínar eru unnar í þágu landamærastjórnunar, til að koma í veg fyrir óreglulegan innflutning og til að einfalda landamæraframkvæmd. Unnið m.a á grundvelli reglugerðar (ESB) 2017/2226.

Ábyrgðaraðilar

  • Lögreglustjórar bera ábyrgð á framkvæmd landamæraeftirlits og landamæravörslu innan síns umdæmis.

  • Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á rekstri EES á Íslandi. Ísland ber ekki ábyrgð á vinnslu gagna í EES af hálfu evrópskra stofnana eða annarra aðildarríkja.

  • Miðlægur hluti EES er rekið af eu-LISA, stofnun Evrópusambandsins.

  • Frekari upplýsingar um vinnslu í miðlægu EES má finna á vef Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Gögn sem eru söfnuð, skráð og unnin

Við eftirlit á ytri landamærum aðildarríkja er skylt að safna persónuupplýsingum þínum til að staðfesta að skilyrði fyrir komu séu uppfyllt.

Safnað verður eftirfarandi persónuupplýsingum:

  • Lífkenni: Lifandi andlitsmynd og vegabréfsmynd allra ríkisborgara þriðju landa sem skylt er að séu skráðir í EES. Fyrir þá sem eru undanþegnir vegabréfsáritunarskyldu eða eru handhafar gegnumferðarskjala (FTD), þarf einnig að gefa fjögur fingraför.

  • Persónuupplýsingar úr ferðaskilríki: Fullt nafn, fæðingardagur og fæðingarstaður, ríkisfang, kyn, hæð, undirskrift, auðkennisnúmer ferðaskilríkis, kennitala eða sambærilegt númer, útgáfuland og gildistími.

  • Val á tungumáli við skráningu í sjálfsafgreiðslubúnaði.

Eftir atvikum getur einnig verið safnað gögnum frá öðrum kerfum:

  • Vegabréfsáritunarkerfinu (VIS): Gögn úr persónuskrá;

  • Upplýsingar um synjun á komu;

  • Upplýsingar um dvöl umfram leyfilegan tíma í Schengen-svæðinu.

Ef þú veitir ekki líffræðileg gögn

Ef þú veitir ekki nauðsynleg lífkenni til skráningar, staðfestingar eða auðkenningar í EES, verður þér synjað um komu inn á Schengen-svæðið.

Lagagrundvöllur fyrir söfnun persónuupplýsinga

Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á uppsetningu EES og landstengingu við miðlægt EES sem eu-LISA hýsir. Ísland er skuldbundið til þátttöku í EES til að uppfylla skyldur við framkvæmds samræmds landamæraeftirlits á við önnur Schengen-ríki.

Þessi skylda byggir á:

  • 16. gr. laga um landamæri nr. 136/2022

  • 8. gr. Schengen landamærareglna, reglugerð (ESB) 2016/399

  • 14. gr., 16.–19. gr. og 23. gr. II. og III. kafla EES reglugerðarinnar (ESB) 2017/2226.

Lagagrundvöllur fyrir vinnslu er uppfylling lagaskyldu c-liðar 1. mgr. 6. gr. GDPR og nauðsyn vegna verulegs almannahagsmuna g-liðar, 2. mgr. 9.gr. GDPR.

Hvernig persónuupplýsingar þínar verða notaðar

Sem ríkisborgari þriðja lands sem kemur til Schengen-svæðisins í skammtímadvöl um landamærastöð á Íslandi, ber þér að skrá þig í EES. Skráning fer fram í sjálfsafgreiðslukassa eða hjá landamæraverði/lögreglumanni eftir atvikum. Reiknirit ber saman lifandi andlitsmynd við andlitsmynd í ferðaskjali til að staðfesta auðkenni. Persónuupplýsingar þínar eru sendar í gegnum kerfi ríkislögreglustjóra til miðlægs EES sem eu-LISA rekur.

Persónuupplýsingar þínar verða einnig notaðar við reglubundið landamæraeftirlit samkvæmt Schengen landamærareglum. Þetta felur í sér staðfestingu á ferðaskjali og samkeyrslu við gagnagrunna lögreglu. Við komu verður athugað hvort þú sért þegar skráður í EES. Við brottför verður brottförin skráð. Ef engin skráning á brottför á sér stað innan leyfilegs dvalartíma, verður það skráð sjálfkrafa í EES. Þetta getur leitt til brottvísunar, ákvörðunar um endurkomubann og/eða tímabundins banns við komu inn á Schengen-svæðið.

Ef þú dvelur lengur en leyfilegt, verður þú skráður á lista yfir aðila í ólöglegri dvöl. Þessi listi er aðgengilegur viðeigandi yfirvöldum. Ef þú ert skráður sem aðili í ólöglegri dvöl getur það leitt til brottvísunar og/eða tímabundins banns við komu inn á Schengen-svæðið. Ef þú veitir trúverðugar upplýsingar um að hin ólögmæta dvöl hafi verið vegna ófyrirséðra og alvarlegra atburða, er hægt að leiðrétta eða bæta við persónuupplýsingum í EES og fjarlægja þig af listanum yfir aðila í ólögmætri dvöl.

Geymsla og varðveislutími persónuupplýsinga

Persónuupplýsingar þínar verða geymdar í miðlæga EES með eftirfarandi hætti:

  • Skráningar um komu, brottför eða synjun verða geymdar í þrjú ár frá skráningardegi;

  • Persónuskrá verður geymd í þrjú ár og einn dag frá síðustu brottför eða synjun, ef engin ný skráning á sér stað;

  • Ef engin brottfararskráning á sér stað, verða gögnin geymd í fimm ár frá síðasta leyfilega dvalardegi.

Persónuupplýsingar úr EES geta einnig verið geymdar af þar til bærum stofnunum í einstökum málum. Slík geymsla er háð sömu varðveislutímum og í miðlæga EES eða eins lengi og nauðsynlegt er samkvæmt lögum nr. 90/2018 um vinnslu persónuupplýsinga eða lögum nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Lengri geymsla er aðeins heimil ef nauðsyn krefur vegna rannsóknar mála eða í öðrum löggæslutilgangi.

Eu-LISA heldur skrá yfir alla vinnslu gagna innan EES.

Vinnsluaðilar

Persónuupplýsingar fyrir eða frá EES geta verið unnar af eftirfarandi aðilum fyrir hönd ríkislögreglustjóra: IDEMIA.

Aðrir aðilar sem kunna að hafa aðgang að gögnum þínum

Viðeigandi yfirvöld í aðildarríkjum Schengen-svæðisins geta haft aðgang að gögnum þínum í tengslum við framkvæmd landamæraeftirlits og í löggæslutilgangi. Europol getur einnig haft aðgang að gögnum þínum í löggæslutilgangi. Gögn þín geta verið flutt til aðildarríkis Schengen-ríkisins, þriðja ríkis eða alþjóðastofnunar, sem tilgreind eru í viðauka I við reglugerð (ESB) 2017/2226 í tengslum við framkvæmd endursendingar eða í löggæslutilgangi.

Réttindi þín

Ríkislögreglustjóri leitast við að upplýsa þig að fullu um réttindi þín er varða persónuupplýsingar.

Réttur til upplýsinga um dvalartíma: Þú átt rétt á að fá upplýsingar um hámarksdvalartíma þinn á Schengen-svæðinu þegar persónuupplýsingar þínar eru skráðar eða skoðaðar í EES. Þú getur sannreynt dvalartímann með reiknivélinni á vef Evrópusambandsins; https://home-affairs.ec.europa.eu/policies/schengen/border-crossing/short-stay-calculator_en.

  • Réttur til aðgangs að upplýsingum: Þú átt rétt á að óska eftir afritum af persónuupplýsingum þínum.

  • Réttur til leiðréttingar: Þú átt rétt á að óska eftir breytingum á persónuupplýsingum sem eru rangar eða ófullnægjandi.

  • Réttur til eyðingar: Þú átt rétt á að óska eftir eyðingu persónuupplýsinga. Beiðni verður aðeins samþykkt ef gögnin hafa verið fengin ólöglega eða ranglega, eða ef geymslutími er liðinn. Sérstaklega átt þú rétt á að láta eyða gögnum úr EES ef þau eru til staðar vegna seinkaðrar brottfarar og þú getur sýnt fram á að það hafi verið vegna ófyrirséðra og alvarlegra atvika.

  • Réttur til takmörkunar á vinnslu: Þú átt rétt á að óska eftir takmörkun á vinnslu persónuupplýsinga. Beiðni verður aðeins samþykkt ef gögnin voru fengin ólöglega eða ranglega.

  • Réttur til andmæla: Þú átt rétt á að andmæla vinnslu persónuupplýsinga. Beiðni verður aðeins samþykkt ef gögnin voru fengin ólöglega eða ranglega.

Samskiptaupplýsingar

Ef þú hefur spurningar um þessa persónuverndaryfirlýsingu, EES eða vinnslu persónuupplýsinga þinna, eða vilt nýta ofangreind réttindi, hafðu samband við ríkislögreglustjóra í gegnum netfangið rls@rls.is eða með pósti á neðangreint heimilisfang. Vakin er athygli á að samkvæmt EES reglugerðinni hefur ríkislögreglustjóri 45 daga til að svara slíkum beiðnum.

Kvartanir: Ísland

Ríkislögreglustjóri, landamæradeild Rauðarárstígur 25, 105 Reykjavík Sími: +354 444 2500 Netfang: lmd@logreglan.is

Ef þú vilt leggja fram kvörtun vegna vinnslu persónuupplýsinga eða telur að Ríkislögreglustjóri hafi ekki meðhöndlað beiðni á réttan hátt, er hægt að hafa samband við Persónuvernd: Heimilisfang: Laugavegur 166, 105 Reykjavík Sími: +354 510 9600 Netfang: postur@personuvernd.is Vefslóð: www.personuvernd.is

Kvartanir: Evrópska persónuverndarstofnunin

Fyrir kvartanir vegna vinnslu í miðlæga EES kerfinu, hafðu samband við Evrópska persónuverndarstofnun: https://edps.europa.eu/data-protection/our-role-supervisor/complaints_en