Framkvæmd kosninga
Upplýsingar um þá sem einkum koma að framkvæmd kosninga og verkefnin sem þeir sinna.
Landskjörstjórn er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem hefur yfirumsjón með framkvæmd kosninga og annast framkvæmd laganna. Verkefni landskjörstjórnar er m.a. að sameina verkefni sem áður voru eru unnin af mörgum aðilum og samræma þannig verklag, auka skilvirkni og efla fagmennsku um kosningaframkvæmd og þróa kosningaframkvæmd og verkferla.
Þegar boðað hefur verið til almennra alþingiskosninga ákveður landskjörstjórn mörk kjördæma í Reykjavík í norður og suðurkjördæmi og er miðað við skráningu íbúa í kjörskrá 56 dögum fyrir kjördag. Mörkin eru við það miðuð að kjósendur í hvoru kjördæmi um sig, að baki hverju þingsæti, séu nokkurn veginn jafnmargir.
Landskjörstjórn útvegar kjörgögn fyrir almennar kosningar, s.s. kjörkassa, kosningahandbók, utankjörfundarkjörgögn og kjörgögn við atkvæðagreiðslu á kjörfundi, en þó ekki kjörseðla vegna sveitarstjórnarkosninga.
Landskjörstjórn lætur í té kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Hún lætur einnig í té leiðbeiningar um tilhögun atkvæðagreiðslunnar.
Landskjörstjórn gefur út ársskýrslu um starfsemi sína og skilar auk þess ráðherra skýrslu eftir hverjar kosningar um undirbúning og framkvæmd þeirra. Ráðherra skal leggja skýrsluna fyrir Alþingi.
Landskjörstjórn skal við forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur tilkynna um niðurstöður talningar.
Málefni kosninga heyrir stjórnarfarslega undir dómsmálaráðherra og hefur ráðuneytið almennt eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum landskjörstjórnar.
Hlutverk ráðuneytisins við kosningar breyttist afar mikið með nýjum kosningalögum.
Sveitarfélögin sjá um framkvæmd kosninga í héraði.
Sveitarstjórn ræður starfsfólk sér til aðstoðar við kosningar. Ekki er skylt að auglýsa slík störf.
Kjörstjórnir eru staðbundin stjórnvöld sem annast framkvæmd kosninga í kjördæmum og sveitarfélögum samkvæmt nánari fyrirmælum kosningalaga.
Í hverju kjördæmi við alþingiskosningar, forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur er yfirkjörstjórn sem hefur umsjón með kosningum í kjördæminu.
Yfirkjörstjórn kjördæmis ræður starfsfólk sér til aðstoðar við kosningar. Ekki er skylt að auglýsa slík störf. Yfirkjörstjórn kjördæmis getur falið starfsfólki sveitarfélaga störf í tengslum við framkvæmd kosninga.
Yfirkjörstjórn kjördæmis skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt þar sem hún dvelst á meðan kosning fer fram, og skal aðsetur hennar liggja eins vel við samgöngum og kostur er.
Allar kjörstjórnir skulu halda gerðabækur og bóka gerðir sínar.
Við lok talningar skal yfirkjörstjórn tilkynna um niðurstöður talningar við alþingiskosningar.
Yfirkjörstjórnir sveitarfélaga hafa umsjón með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga hver í sínu sveitarfélagi.
Yfirkjörstjórn sveitarfélags getur falið starfsfólki sveitarfélaga störf í tengslum við framkvæmd kosninga.
Yfirkjörstjórn sveitarfélags skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt þar sem hún dvelst á meðan kosning fer fram.
Allar kjörstjórnir skulu halda gerðabækur og bóka gerðir sínar.
Við lok talningar við sveitarstjórnarkosningar skal yfirkjörstjórn tilkynna um niðurstöður talningar.
Sýslumenn eru kjörstjórar, hver í sínu umdæmi og sjá þeir um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu við kosningar.
Kjörstjóri auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram og á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar.
Kjörgögn skulu jafnan vera fyrir hendi hjá þeim er annast atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.
Kosningu utan kjörfundar skal hefja svo fljótt sem kostur er eftir að framboðslistar hafa verið auglýstir , þó eigi síðar en 29 dögum fyrir kjördag.
Utanríkisráðuneytið er tengiliður landskjörstjórnar við kjörstjóra erlendis og sér t.d. um að senda þeim kjörgögn og kosningaleiðbeiningar og birta upplýsingar yfir kjörstjóra erlendis.
Miðlæg vinnsla kjörskrár fer fram hjá Þjóðskrá Íslands.
Kosningalög gera ráð fyrir að kjörskrá sé rafræn en að sveitarfélög geti sótt um undanþágu frá því.
Þjóðskrá Íslands ber að auglýsa að gerð hafi verið kjörskrá og hvenær og hvernig hún verði aðgengileg.
Viðmiðunardagur kjörskrár er 38 dögum fyrir kjördag.
Athugasemdum við kjörskrá skal beint til Þjóðskrár Íslands sem tekur þær þegar til meðferðar og gerir viðeigandi leiðréttingar á rafrænni kjörskrá ef við á. Slíkar leiðréttingar má gera fram á kjördag.
Heimilt er að leiðrétta rafræna kjörskrá ef:
Þjóðskrá Íslands hefur láðst að skrá lögheimili kjósanda til samræmis við tilkynningu hans um flutning,
Þjóðskrá Íslands berst vitneskja um andlát kjósanda,
Þjóðskrá Íslands berst vitneskja um að erlendur ríkisborgari hafi öðlast íslenskt ríkisfang eða að kjósandi hafi misst íslenskt ríkisfang,
Þjóðskrá Íslands berst vitneskja um að danskur ríkisborgari eigi kosningarrétt hér á landi samkvæmt lögum um réttindi danskra ríkisborgara á Íslandi, nr. 18/1944, sbr.lög nr. 85/1946, um ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur,
íslenskur ríkisborgari, sem aldrei hefur átt lögheimili hér á landi eða sem misst hefur kosningarrétt flyst til landsins og skráir aftur lögheimili sitt hér á landi eftir viðmiðunardag kjörskrár,
Þjóðskrá Íslands verður þess að öðru leyti áskynja að villa hafi verið gerð við skráningu kjósanda við kjörskrárgerðina.
Hagstofa Íslands tekur saman og gefur út tölfræðiupplýsingum um kosningar s.s. aðstoð á kjörstað, kjörsókn eftir kyni, aldri, ríkisfangi hjá yfirkjörstjórnum sveitarfélaganna og sýslumönnum.
Yfirkjörstjórnir þurfa að standa á skil á kosningaskýrslum til Hagstofu Íslands.
Úrskurðarnefnd kosningamála tekur til úrskurðar ýmsar kærur er varða kosningar og kosningaframkvæmd.
Til nefndarinnar má m.a. skjóta eftirtöldum ákvörðunum:
Synjun Þjóðskrár Íslands um að taka kjósanda á kjörskrá og um leiðréttingar á kjörskrá.
Ákvörðun landskjörstjórnar og yfirkjörstjórnar sveitarfélags um gildi framboðslista og önnur atriði er þau varða.
Ákvörðun yfirkjörstjórnar um kjörgengi frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningum.
Kæru vegna ólögmætis sveitarstjórnarkosninga.
Ákvörðunum sem landskjörstjórn tekur samkvæmt öðrum lögum
Nánari upplýsingar um úrskurðarnefnd kosningamála: Stjórnarráðið | Úrskurðarnefnd kosningamála (stjornarradid.is)
Netfang úrskurðarnefndar kosningamála er: urskurdarnefndkosningamala@dmr.is.