Ríkisreikningur fyrir árið 2024 er kominn út
30. júní 2025
Ríkisreikningur fyrir árið 2024 er kominn út. Reikningurinn er settur fram í þremur hlutum: samstæðuársreikningur ríkissjóðs í heild, samstæðuársreikningur A-hluta ríkissjóðs og séryfirlit A1-hluta.

Reikningurinn er settur fram í þremur hlutum og er fyrsti hlutinn samstæðureikningur A-, B- og C-hluta ríkissjóðs. Annar hlutinn inniheldur ársreikning A-hluta ríkissjóðs og inniheldur þriðji hlutinn séryfirlit A1-hluta ríkissjóðs sundurliðanir sem gefa frekari upplýsingar um ríkisfjármálin. Afkoma ársins fyrir ríkið í heild er neikvæð um 56 ma.kr. samanborið við neikvæða afkomu á fyrra ári um 81 ma.kr.
Í séryfirliti 2 í þriðja hluta reikningsins er birt heildarafkoma A1-hluta ríkisins á árinu 2024 sem búið er að aðlaga að framsetningu í fjárlögum. Þar kemur fram að heildarafkoman var neikvæð um 62 ma.kr. sem er um 10 ma.kr. verri en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins og um 14 ma.kr. betri en útlit var fyrir samkvæmt áætlunum síðla árs 2024. Þá er frumjöfnuður jákvæður um 31 milljarða króna en var áætlaður jákvæður um 25 milljarða króna samkvæmt samþykktum fjárlögum. Frumjöfnuður er afkoma ríkissjóðs fyrir fjármagnsliði.
Ríkisreikningurinn er aðeins gefinn út á rafrænu formi í þetta sinn sem er í samræmi við áherslur Fjársýslunnar.