Nordic GovTech Alliance valið Ignite Heroes ársins 2025
21. janúar 2026
Nordic GovTech Alliance (NGA) — sem Fjársýslan er stofnaðili af — hefur verið valið Ignite Hetja ársins 2025 af Ignite Sweden. Viðurkenningin undirstrikar væntingar til tækifæra sem felast í markvissum opinberum innkaupum á nýsköpun sem aðferð við að leiða fram skalanlegar umbætur í ríkisrekstri.

Aðferðafræði NGA byggir á að stofnanir, landshlutar eða sveitarfélög eru færð úr hefðbundnu kaupendahlutverki yfir í að verða meðal fyrstu notenda nýjunga og eftirsóknarverðir viðskiptavinir nýsköpunarfyrirtækja. Þannig eru innkaup nýtt sem tæki til að móta markaði fremur en að hefta aðgengi opinberra aðila að nýsköpun. Aðferðafræði NGA auðveldar opinberum kaupendum að skapa nýtt virði í eigin starfsemi með þarfadrifinni nálgun fremur en kröfulistum, opnu samtali við markaðinn og innkaupaferlum sem brúa bilið úr samstarfi (e. piloting) yfir í langtíma viðskipti.
Sara Hamlin, forstjóri Ignite Sweden, segir að „Nordic GovTech Alliance skapar vettvang fyrir opinbera aðila til að tvinna saman bæði hugrekki og raunsæi. Með því að leggja raunverulegar áskoranir á borðið og sýna einlægan vilja til að prófa nýjar lausnir skapast skilyrði fyrir þýðingarmiklu samstarfi. Þessi nálgun nýtist ekki aðeins sprotafyrirtækjum heldur styrkir einnig opinbera nýsköpun á Norðurlöndum.“
Viðurkenningin styrkir enn frekar hlutverk NGA og Fjársýslunnar í að virkja sameiginlega norræna eftirspurn, samstilla opinbera fjárfestingu og innkaup og flýta varanlegum umbótum í opinberri þjónustu þvert á Norræn landamæri.
"Við erum stolt af þátttöku okkar í þessu verkefni sem styður við opinber innkaup á nýsköpun" segir Ingþór Karl Eiríksson, forstjóri Fjársýslunnar, og bætir við að "þessi viðurkenning hvetur okkur til dáða að ná enn meiri árangri á þessu sviði".
Viltu vita meira? Hafðu samband með því að smella hér
Mynd: Ignite Awards 2025 Wine Mechanics Photographer Natalie Grepp
